Honum varð ekki um sel ökumanninum sem átti leið um E6-brautina sunnan við Ósló í Noregi á sjötta tímanum í gærmorgun þegar hann ók upp að Tesla-bifreið nokkurri á um hundrað kílómetra hraða miðað við klukkustund þar sem heitir Langhus, skömmu áður en komið er að Nøstvet-jarðgöngunum norðan megin frá.
Þótti honum eitthvað lítið fara fyrir ökumanni bifreiðarinnar og renndi upp að hlið hennar til að kanna málið. „Öku“maðurinn reyndist þá steinsofandi við stýri færleiks síns sem í krafti sjálfkeyrandi eiginleika sinna sveif eftir E6-brautinni, sem er mjög fjölfarin, ekki síst á morgnana og síðdegis virka daga, sem vakandi manneskja sæti við stýrið og æki.
„Ég hélt fyrst að þetta væri grín, en svo sá ég að hann svaf, með hangandi haus og hvoruga hönd á stýri svo sjá mætti,“ segir ökumaðurinn sem tók upp langt myndskeið af atvikinu á síma sinn og sendi norska dagblaðinu VG. „Ég margreyndi að fá hann til að stöðva bifreiðina, en hann sýndi ekkert lífsmark.“
Lá leið bifreiðanna svo inn í Nøstvet-göngin sem eru 3,7 kílómetra löng og tengja Vinterbro og Assurdalen, ein fjölmargra jarðganga á þessum kafla E6. Þar nam Tesla-bifreiðin staðar af eigin rammleik, hvort sem háþróaður hugbúnaður hennar dró þá ályktun að nú væri nóg komið af tómlæti ökumannsins eða eitthvað annað kom til.
Myndatökumaðurinn þeytti flautu sína ákaft við hlið hins án þess að hann svo mikið sem rumskaði og sá að lokum ekki annað tækt í stöðunni en að hringja í lögregluna sem kom á vettvang fimm mínútum síðar.
Klukkan 05:40 birtist tilkynning á Twitter-svæði lögreglunnar í suðausturumdæminu þar sem greint var frá því að lögregla hefði haft afskipti af 24 ára gömlum karlmanni sem hefði steinsofið undir stýri auk þess að vera í vímu. Þrátt fyrir að langt myndskeið væri til af akstrinum þverneitaði maðurinn að hafa ekið bifreiðinni – sem reyndar má kannski til sanns vegar færa í þessu tilfelli.
„Þetta er mjög alvarlegt. Ég hef ekki séð neitt þessu líkt í Noregi,“ segir Behreng Mirzaei, lögmaður á ákærusviði lögreglunnar, „viðkomandi liggur undir grun um tvö brot, gáleysislegan akstur og akstur undir áhrifum. Við vinnum nú að því að safna tæknilegum gögnum og myndefni frá eftirlitsmyndavélum við veginn til að komast að því hve löng ökuferðin var,“ segir Mirzaei enn fremur í samtali við norska dagblaðið VG um þennan sérstaka bíltúr á E6 í gærmorgun.
Sjón er sögu ríkari, hér má fylgjast með sofandi ökumanni í vímu á 100 kílómetra hraða á Tesla-bifreið sinni: