Skógareldar geisa um suðurhluta Tyrklands

Eldurinn brennir allt sem á vegi hans verður.
Eldurinn brennir allt sem á vegi hans verður. AFP

Skógareldar brenna allt sem á vegi þeirra verður, fimmta daginn í röð, í suðurhluta Tyrklands. Samkvæmt fjölmiðlum þar ytra hafa sex manns látist í eldunum.

Skógareldarnir kviknuðu á miðvikudag og hafa síðan þá yfir þrjú hundruð manns særst. Nærliggjandi þorp og hótel hafa verið rýmd vegna eldanna.

Haft er eftir fjölmiðlum í Tyrklandi að enn einn eldurinn hafi kviknað í borginni Bodrum en borgin er vinsæll áfangastaður ferðamanna. Skógar- og landbúnaðarráðherra Tyrklands, Bekir Pakdemirli, birti færslu á Twitter og tók þar fram að enn logaði í tíu mismunandi skógareldum en tekist hefði að ráða niðurlögum áttatíu og átta annarra skógarelda.

Þakkar Pútín aðstoðina

Í tilkynningu frá forseta Tyrklands, hinum umdeilda Racip Erdogan, kom fram að forsetinn hefði þakkað Vladimír Pútín Rússlandsforseta fyrir aðstoðina við slökkvistarf, en Rússar sendu flugvélar og þyrlur til aðstoðar Tyrkjum.

Forsetinn hefur sætt nokkurri gagnrýni heima fyrir vegna þess að engar flugvélar sem til þess eru hannaðar að eiga við skógarelda hafi verið til taks. Þriðjungur Tyrklands er þá skógi vaxið svæði og auk þess eru skógareldar sívaxandi vandamál þar ytra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka