Áhrif Hitlers á Ólympíuleikana

Fritz Schilgen hleypur með Ólympíueldinn á leikunum í Berlín 1936 …
Fritz Schilgen hleypur með Ólympíueldinn á leikunum í Berlín 1936 við mikla aðdáun viðstaddra. Ljósmynd/Wikipedia.org

Þegar Naomi Osaka tendraði ólympíueldinn á setningarhátíð Ólympíuleikanna í Tókýó á föstudag og markaði þar með upphaf leikanna sem nú fara fram, fetaði hún í fótspor Muhammads Ali, Waynes Gretzky, Steves Nash og annarra merkra íþróttamanna. Nú, og auðvitað í fótspor hins þýska Fritz Schilgen.

Fyrir þá sem ekki þekkja til, fæddist Schilgen árið 1906 í Þýskalandi. Hann æfði hlaup af kappi samhliða námi í rafmagnsverkfræði við Tækniháskólann í Darmstadt og varð þriðji á þýska meistaramótinu í 1.500 metra hlaupi árin 1931 og 1933.

Árið 1936 voru Ólympíuleikarnir haldnir í Berlín í Þýskalandi og var Schilgen valinn af sérstakri „fagurfræðinefnd“ leikanna til að vera sá fyrsti til að hlaupa með ólympíueldinn síðasta spölinn og tendra hann á opnunarhátíðinni. Schilgen keppti ekki á leikunum en var valinn vegna þess hve fallegan hlaupastíl hann hafði en hlauparinn átti að vera táknmynd þýskrar íþróttaæsku. Hlaup Schilgen með eldinn gegndi síðar stóru hlutverki í heimildamynd Leni Riefenstahl, Olympia, um leikana.

Gríðarlegum fjármunum eytt

Adolf Hitler og nasistaflokkur hans komust til valda í Þýskalandi árið 1933. Ólympíuleikunum hafði verið útdeilt til Berlínar tveimur árum áður og sá Hitler sér leik á borði að nota leikana til að auglýsa og vekja athygli á vafasömum gildum flokksins eins og yfirburðum hvíta mannsins og þýsku þjóðarinnar. Þá var þýskum gyðingum meinað að taka þátt á leikunum með ýmsum leiðum þó nokkrir sundmenn af gyðingaættum hafi tekið þátt.

Þegar leikarnir fóru fram var uggur í mönnum utan Þýskalands vegna kynþáttahaturs þýskra stjórnvalda og innrásar þeirra í Rínarlönd. Hitler vildi breyta ímynd þriðja ríkisins út á við og var því markmiðið að halda sem stórkostlegasta leika sem myndu vekja undrun hjá þeim sem fylgdust með. Því var ráðist í miklar framkvæmdir fyrir leikana og var ólympíuleikvangurinn í Berlín reistur fyrir leikana og rúmaði þá rúmlega 100 þúsund manns í sæti auk þess sem fleiri byggingar voru reistar. Gríðarlegum fjármunum var eytt til að gera leikana sem glæsilegasta.

Nútímaleikarnir fæddir

Fyrstu beinu sjónvarpsútsendingarnar af íþróttum voru sendar út frá leikunum. Tæknin var ekki langt á veg komin á þessum tíma og því er ekki hægt að segja að nasistarnir hafi verið brautryðjendur í sjónvarpsútsendingum. Í útvarpsútsendingum voru þeir það hins vegar.

Mikið var lagt í að öll tækni til útvarpsútsendinga væri eins og best væri á kosið og kostnaður erlendra útvarpslýsenda var niðurgreiddur af þýskum stjórnvöldum. Heimsins bestu hljóðnemar sem tóku upp hljóð í mun betri gæðum en áður þekktist voru hannaðir af þýskum verkfræðingum. Því var hægt að hlusta á beinar útsendingar frá leikunum alls staðar í heiminum á sama tíma.

Á leikunum á undan, 1932 í Los Angeles, var ekki sama áherslan lögð á að heimurinn allur fengi að fylgjast með því sem gerðist. Þar óttuðust menn að ef útsendingar væru of góðar kæmi það niður á miðasölu á leikunum. Þjóðverjar vildu hins vegar miklu frekar stunda áróður og upplýsa heimsbyggðina um ágæti sitt heldur en að selja nokkra miða til viðbótar. Fór svo að hlustendur voru um 300 milljónir hið minnsta en á þeim tíma höfðu langt því frá eins margir fylgst með viðburði í beinni útsendingu áður. Ein skoðun er sú að þarna hafi leikarnir eins og við þekkjum þá í dag, sem risastór viðburður á heimsvísu, orðið til.

Nánar er fjallað um áhrif nasista á Ólympíuleika nútímans í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert