Hvítrússneskur aðgerðasinni fannst látinn

Frá fjöldamótmælum í Hvíta-Rússlandi í fyrra.
Frá fjöldamótmælum í Hvíta-Rússlandi í fyrra. AFP

Eftirlýstur hvítrússneskur aðgerðasinni fannst hengdur í almenningsgarði í Kiev í Úkraínu, að sögn lögreglu þar í landi í dag. Morðrannsókn er hafin á málinu.

Vitaly Shishov, 26 ára, var formaður félagssamtakanna Hvítrússneska húsið (e. Belerusian House) í Úkraínu. Samtökin aðstoðuðu hvítrússneska borgara að flýja ofríki í Hvíta-Rússlandi. Hann hafði horfið sporlaust skömmu áður. 

Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó, for­seti Hvíta-Rúss­lands, hefur beitt miklu valdi gegn óhlýðni eða ögrun við yfirvald eftir að fjöldamótmæli brutust úr í fyrra í kjölfar forsetakosninga sem víða eru taldar hafa verið ósanngjarnar. 

Saka stjórn Lúka­sj­en­kó um morð 

Margir Hvítrússar hafa flúið land, oft til Úkraínu, Póllands eða Litháens. 

„Hvítrússneskur ríkisborgari, Vitaly Shishov, sem hafði verið lýst eftir í Kiev í gær, fannst í dag hengdur í almenningsgarð skammt frá heimili sínu,“ segir í yfirlýsingu lögreglunnar í Kiev. 

Sem fyrr segir er málið rannsakað sem morð og segir lögregla að allar vísbendingar um dauða hans verði kannaðar í þaula, einnig möguleikinn á morði sem sett hefur verið í búning sjálfsvígs. 

Félagssamtökin Hvítrússneska húsið hafa sakað stjórn Lúka­sj­en­kós um að vera á bak við morðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert