Hersveitir öfgasamtakanna Talíban í Afganistan munu halda áfram árásum sínum á stjórnarherinn og fulltrúa stjórnvalda. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem samtökin hafa sent frá sér en barist hefur verið víða um landið einkum í nágrenni borga sem eru enn undir stjórn yfirvalda. Talíban hefur yfirráð yfir stærstum hluta af landsbyggðinni þar sem flestir Afganir búa.
Þriðjudag slapp varnarmálaráðherra Afganistan, Bismillah Mohammadi, naumlega undan tilræði þar sem árásarmenn beittu sprengju og byssum. Er þetta fyrsta árásin sem á sér stað í Kabúl, höfuðborg landsins, í marga mánuði.
Barist hefur verið hart á landsbyggðinni allt frá því í maí þegar herafli erlendra ríkja hófu síðasta kafla í brottför sinni frá landinu. Allir hermenn verða farnir í þessum mánuði.
Talíbanar sprengdu fyrst um sinn bílsprengju fyrir utan heimili ráðherrans áður en þeir gerðu áhlaup á húsið. Sveitir afganskra yfirvalda náðu að vernda varnarmálaráðherrann og lögðu árásarmennirnir á flótta, en átta létu lífið og mun fleiri særðust í árásinni segir Mirwais Stanikzai talsmaður innanríkisráðuneytis Afganistan.
Í kjölfar árásarinnar söfnuðust þúsundir saman í borgum Afganistan og hrópuðu „Allahu Akbar“ (Guð er mikill) til stuðnings yfirvalda. Önnur sprengjuárás varð í Kabúl sama dag og svo aftur miðvikudag og liggja þrír í valnum. Það er því fátt sem bendir til þess að átökunum fari að linna í bráð.