Timanovskaya kveðst frelsinu fegin

Krystsina Tsimanouskaya ávarpaði fjölmiðla í dag.
Krystsina Tsimanouskaya ávarpaði fjölmiðla í dag. AFP

Hvítrússneska ólympíuíþróttakonan Krystsina Tsimanouskaya sagðist vera glöð með að vera komin í öruggt umhverfi, daginn eftir að hún lenti í Póllandi þar sem hún hefur fengið landvistarleyfi. 

Diplómatísk átök og dramatísk örlög hafa umlukt íþróttakonuna ungu sem óttaðist um örlög sín, öryggi og velferð eftir að hafa opinberlega gagnrýnt þjálfarateymi sitt. Leitaði hún á náðir starfsfólks og nefndarmanna alþjóðaólympíunefndarinnar þegar hún sagði sig hafa verið neydda heim af Ólympíuleikunum í Tókýó á sunnudaginn. 

Tjáði hún ánægju sína við blaðamenn í Varsjá í Póllandi þar sem hún lenti í gær eftir langt ferðalag frá Tókýó í Japan með millilendingu í Vín í Austurríki.

Sagði hún það hafa komið sér í opna skjöldu hversu stór pólitískur skandall hefði orðið úr máli hennar, sem upphaflega snerist um íþróttir og stjórnun.

„Ég vil bara fá að halda áfram að leggja stund á mína íþrótt,“ sagði Tsimanouskaya og bætti við að maðurinn hennar, Arseny Zdanevich, væri nú þegar á leiðinni Póllands og myndi koma þangað í dag. 

Hann hefur sömuleiðis fengið landvistarleyfi í Póllandi á grundvelli mannréttinda en hann er þegar flúinn frá Hvíta-Rússlandi til Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert