Borgin Zaranj í suðvestur Afganistan er fyrsta héraðshöfuðborgin í Afganistan til að falla í hendur Talíbana.
Talíbanar náðu yfirráðum í borginni á föstudag. Þeir hafa verið í stórsókn undanfarnar vikur og mánuði og náð miklu landi undir sína stjórn. Hermenn Bandaríkjahers hafa yfirgefið landið á síðustu vikum og verða þeir allir farnir í lok mánaðar.
Búist er við að Talíbanar muni reyna að ná yfirráðum í fleiri héraðshöfuðborgum á næstunni, svo sem borginni Herat í vestri og borgunum Kandahar og Lashkar Gah í suðri.
Zaranj er staðsett við landamæri Afganistan og Íran og er mikil viðskiptamiðstöð. Talíbanar höfðu náð undir sig umlykjandi svæðum og réðust svo inn í borgina. Ráðamenn á svæðinu hafa greint frá því að borgin hafi fallið í þeirra hendur án þess að hleypt hafi verið af skoti. Stjórnvöld sendu ekki liðsauka á svæðið til að verja hana áhlaupinu.