Hvað verður um Cuomo ríkisstjóra?

Ríkisstjóri New York-ríkis í Bandaríkjunum, Andrew Cuomo, á nú ekki sjö dagana sæla er dyggustu stuðningsmenn hans snúa við honum bakinu. Á miðvikudag kynnti ríkissaksóknari New York, Letitia James, 168 blaðsíðna skýrslu um háttsemi Cuomos. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að hann hafi kynferðislega áreitt að minnsta kosti ellefu konur.

Letitia James, ríkissaksóknari New York, og Andrew Cuomo, ríkisstjóri New …
Letitia James, ríkissaksóknari New York, og Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York. AFP

Ríkisstjórinn sætir nú sakamálarannsókn í Albany, ríkishöfuðborg New York. Sú rannsókn mun taka til brota síðustu þriggja ára en samkvæmt lögum New York-ríkis fyrnast kynferðisbrot eftir þann tíma. Í skýrslu ríkissaksóknara kemur hins vegar fram að Cuomo hafi skapað fjandsamlegt og eitrað vinnuumhverfi þegar frá upphafi embættistöku sinnar.

Yfirgripsmikil rannsókn

Rannsókn hófst á háttsemi Cuomos á síðasta ári í kjölfar þess að nokkrar konur stigu fram með ásakanir á hendur honum. Á fimm mánaða tímabili ræddu rannsakendur við nærri 200 manns, meðal annars starfsfólk Cuomos og einhverjar þær kvenna sem höfðu haft ásakanirnar uppi. Tugþúsundir skjala, ljósmynda og texta voru skoðaðar vegna rannsóknarinnar.

Í skýrslunni kemur fram að Cuomo hafi meðal annars kynferðislega áreitt fyrrverandi og núverandi samstarfsmenn. Hann hefur meðal annars verið sakaður um að kyssa konu án samþykkis hennar, að spyrja óviðeigandi spurninga út í einkalíf eins fórnarlambanna, meðal annars um það hvort viðkomandi hefði áhuga á að stunda kynlíf með eldri manni, og að þukla á brjóstum einnar þeirra.

Fjölþætt málsókn

Cuomo er demókrati og lengst starfandi ríkisstjóri nokkurs ríkis Bandaríkjanna um þessar mundir, en hann hefur gegnt embættinu frá árinu 2011. Þá gegndi faðir hans einnig embætti ríkisstjóra New York frá 1983 til 1994 og var Cuomo hvattur áfram til metorða innan Demókrataflokksins.

Fyrir nokkrum vikum gátu stuðningsmenn borgað tíu þúsund bandaríkjadollara, eða um 1,2 milljónir íslenskra króna, fyrir að fá að blanda geði við ríkisstjórann í lúxusíbúðinni hans á Manhattan-eyju. Nú hafa hins vegar flestir stuðningsmenn Cuomos snúið baki við honum. Þar á meðal mörg verkalýðsfélög og margir samflokksmenn Cuomos svo sem Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og öldungadeildarþingmennirnir Chuck Schumer og Kirsten Gillibrand hafa sagt að Cuomo ætti að segja af sér.

Öldungadeildarþingmaðurinn Chuck Schumer óskar eftir afsögn Cuomo.
Öldungadeildarþingmaðurinn Chuck Schumer óskar eftir afsögn Cuomo. AFP

Þá hefur Joe Biden Bandaríkjaforseti einnig óskað eftir afsögn ríkisstjórans. Nokkrir þingmenn segjast nú undirbúa ákæru til embættismissis á hendur Cuomo fyrir afglöp í starfi.

Ef sú ákæra verður lögð fram myndi hún taka til fjögurra lykilmála. Það eru ásakanirnar um kynferðislega áreitni sem og meðhöndlun hans á gögnum hjúkrunarheimila á tímum heimsfaraldursins, en Cuomo er talinn hafa viljandi látið vantelja dauðsföll af völdum Covid-19 á elliheimilunum.

Þá er hann talinn hafa notað opinbert fé til þess að rita endurminningar sínar um heimsfaraldurinn og gert mistök við byggingu brúar sem hlaut nafn eftir ríkisstjóranum Mario M. Cuomo, en Mario var faðir Andrews Cuomos.

Ákæran verður þó líklega ekki lögð fram fyrr en þingmenn eru þess fullvissir að þeir geti sigrað lögfræðiteymi Cuomos. Samkvæmt frétt á vef New York Times yrði það í fyrsta lagi í lok september. Verði ákæran lögð fram hefur ríkisþingið 30 til 60 daga til þess að hefja réttarhöld yfir Cuomo.

Reiðir sig á stuðning almennings

Til að koma Cuomo úr embætti þyrfti svo samþykki meirihluta fulltrúadeildar ríkisþingsins og síðan tvo þriðju hluta öldungadeildaratkvæða. Demókratar eru með yfirgnæfandi meirihluta í báðum deildum innan ríkisins. Margir telja að Cuomo sé frekar að reiða sig á fylgi almennra kjósenda en í nýlegri könnun á meðal New York-búa sögðust 59% vilja sjá hann segja af sér, en 52% þeirra sem hafa kosið Demókrataflokkinn vilja að hann segi af sér.

Kosið verður til embættis ríkisstjóra á næsta ári og telja kannanir að Cuomo hafi einungis um 18% fylgi. Ef honum yrði vikið úr starfi myndi vararíkisstjórinn, Kathy Hochul, taka við embættinu en hún yrði þá fyrsti kvenkyns ríkisstjóri New York-ríkis.

Almenningur mótmælti Cuomo á götum New York-borgar.
Almenningur mótmælti Cuomo á götum New York-borgar. AFP

„Ekki hver ég er“

Cuomo þverneitar ásökunum og segir að um menningarlegan misskilning á milli kynslóða sé að ræða. Yfirlýsing sem hann gaf út á miðvikudag innihélt fleiri en 40 myndir af honum og áberandi stjórnmálamönnum að faðmast til þess að sýna fram á sakleysi í málinu. Meðal stjórnmálamanna sem sjást á myndunum eru fyrrverandi forsetanir George Bush og Barack Obama.

„Staðreyndirnar eru frábrugðnar því sem hefur verið lýst. Ég er 63 ára. Ég hef lifað allt mitt líf í opinberri þjónustu. Þetta er bara ekki sá sem ég er og hef aldrei verið,“ sagði Cuomo í yfirlýsingunni. Hann heitir því að sitja sem fastast í embætti þrátt fyrir sakamálarannsóknina og yfirvofandi málsmeðferð fyrir embættisbrot.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert