Stór hópur fólks er nú samankominn í Frakklandi fjórðu helgina í röð til að mótmæla svokölluðum heilsupassa sem krafist verður af fólki sem vill til að mynda setjast inn á kaffihús eða ferðast með háhraðalest.
Með kröfu um heilsupassa er fólk skyldað, með óbeinum hætti, til að vera fullbólusett gegn Covid-19, geta reitt fram neikvæðar niðurstöður úr sýnatöku eða vottorð fyrir því að hafa nýlega jafnað sig af Covid-19-veikindum.
Eru þessar reglur settar að frumkvæði Emmanuels Macrons, forseta Frakklands, sem vonast til þess að þær muni hvetja fólk til að þiggja bólusetningu. Þannig verði hægt að ná tökum á útbreiðslu delta-afbrigðisins.
Fólk sem er mótfallið þessum aðgerðum hefur hópast saman á götum úti undanfarnar vikur og gagnrýnt að þessar reglur skerði einstaklingsfrelsi óhóflega í samfélagi þar sem mikið er lagt upp úr frelsi einstaklingsins.
Frá og með mánudeginum verður heilsupassa krafist þegar fólk vill snæða á veitingastöðum, hvort sem það er innan- eða utandyra. Sama gildir um kaffihús og krár. Hans verður einnig krafist af þeim sem vilja nýta sér samgöngur á við háhraðalestir og innanlandsflug en mun þó ekki gilda um annars konar samgöngur innanbæjar eins og neðanjarðarlestina.
Frá 21. júlí hefur fólk þurft að sýna passann þegar það mætir á menningarviðburði eða söfn. Á fimmtudaginn var samþykkt að útvíkka gildissvið reglnanna svo þær nái til ofangreindra staða. Þetta kemur fram í umfjöllun Guardian.