Þriðji stærsti gróðureldur í sögu ríkisins

Mikill gróðureldur í Norður-Kaliforníu, sem þegar er orðinn sá þriðji stærsti í sögu ríkisins, hélt áfram að breiðast út í nótt. Yfirvöld segja að kaldara og rólegra veður í dag hafi gefið slökkviliðsmönnum kærkomið hlé frá baráttunni við eldinn.

Fyrr í vikunni fór eldurinn, sem vestanhafs er nefndur Dixie-eldurinn, yfir bæinn Greenville og skildi hann eftir rústir einar.

Meðal þess sem hefur hægt á eldinum er sú staðreynd að hann hitti fyrir sár eftir gamlan gróðureld, sem átti sér stað 2007 og dró þar með úr þeim eldsmat sem er til staðar.

Í umfjöllun Los Angeles Times segir að yfirvöld hafi sums staðar þurft að eiga við vopnaða íbúa sem neiti að yfirgefa heimili sín. Þegar svo bregði við óski lögreglan eftir nöfnum náinna skyldmenna, til að geta látið þau vita fari svo að viðkomandi láti lífið í eldunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert