Andrés Bretaprins hefur verið kærður fyrir nauðgun í Bandaríkjunum. Virginia Giuffre segist hafa verið neydd til þess að stunda kynlíf með Andrési þegar hún var 17 ára.
Giuffre hefur höfðað mál gegn Andrési fyrir dómstólum á Manhattan-eyju í Bandaríkjunum. Í kærunni segir að hann hafi misnotað Giuffre þrisvar áður en hún náði 18 ára aldri fyrir tveimur áratugum.
Talsmenn prinsins segjast ekki vilja tjá sig vegna kærunnar en Andrés hefur áður þverneitað ásökunum Giuffre. Hann segist alls ekki muna eftir að hafa nokkurn tímann hitt hana.
„Ég ætla að draga Andrés prins til ábyrgðar fyrir það sem hann gerði mér. Hinir valdamiklu og ríku eru ekki undanþegnir því að vera ábyrgir gjörða sinna. Ég vona að önnur fórnarlömb sjái að það er ekki hægt að lifa í þögn og ótta heldur endurheimti líf sitt með því að tjá sig og krefjast réttlætis,“ segir Giuffre í yfirlýsingu.