Yfir þúsund nemenda rænt í Nígeríu

Áhyggjufullir foreldrar nemenda úr Bethel Baptist-skólanum sem var rænt 14. …
Áhyggjufullir foreldrar nemenda úr Bethel Baptist-skólanum sem var rænt 14. júlí síðastliðinn af vopnuðum árásarmönnum. AFP

Yfir þúsund nemendum hefur verið rænt á árinu í norðurhluta Nígeríu. Skortur á öryggisgæslu og tregi yfirvalda við að taka almennilega á vandamálinu er sagt hafa leitt til þess að ránsfaraldur geisar nú á svæðinu.

Breski fréttamiðillinn the Guardian greinir frá þessu.

Mörg fórnarlambanna eru skólabörn og minnir ástandið óneitanlega á það þegar Boko Haram rændi hátt í 300 skólastúlkum árið 2014.

Talið er að fjöldi ræningja á svæðinu sé hátt í 3.000. Saka margir yfirvöld í Nígeríu um aðgerðaleysi en öryggisbresturinn hefur haft neikvæð áhrif á mætingu barna í skóla á svæði þar sem hlutfall ólæsis er hátt og barnabrúðkaup tíð.

Í síðustu viku voru 27 nemendur frelsaðir gegn lausnargjaldi eftir að hafa verið teknir af ræningjum. Sex nemendur náðu að flýja árásarmennina en 87 nemendur sitja enn eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert