Það er „ekki möguleiki“ að öðlast hjarðónæmi á meðan Delta-afbrigði kórónuveirunnar er í umferð í samfélaginu, að sögn Andrews Pollard, yfirmanns bóluefnateymis Háskólans í Oxford.
Guardian greinir frá.
Hann kynnti gögn fyrir þingmönnum í gær og sagði að sú staðreynd að bóluefni gegn Covid-19 komi ekki í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar þýddi að það hjarðónæmi væri einungis „tálsýn“.
Pollard sagði þó enga ástæðu til þess að hafa verulegar áhyggjur, þar sem bólusetning virðist vernda fólk vel gegn alvarlegum veikindum af völdum Covid-19.
„Vandamálið með þessa veiru er að hún er ekki mislingaveira. Ef 95% fólks hefðu fengið bólusetningu gegn mislingum þá væri ómögulegt fyrir veiruna sem þeim veldur að breiðast út,“ sagði Pollard við kórónuveirunefnd breska þingsins.
„Bólusettir munu áfram smitast af Delta-afbrigði veirunnar. Það þýðir að hver sá sem ekki er bólusettur gegn Covid-19 mun á einhverjum tímapunkti komast í snertingu við veiruna. Við höfum ekkert í höndunum sem getur algjörlega stöðvað það.“
Þrátt fyrir að þau bóluefni sem til eru veiti öfluga vernd gegn alvarlegum Covid-19 og dauða, þá hindra þau ekki algjörlega að fullbólusett manneskja smitist af kórónuveirunni.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að bólusetning gegn Covid-19 geti ekki skapað hjarðónæmi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is í gær að samvinna margra þátta myndi hjarðónæmi en útbreiðsla smita sé einn þeirra.
Nýleg rannsókn á vegum Imperial College í London bendir til þess að fullbólusettir einstaklingar á aldrinum 18 til 64 ára séu um 49% ólíklegri til að smitast af kórónuveirunni en óbólusettir. Þá benda niðurstöður rannsóknarinnar til þess að fullbólusettir séu þrisvar sinnum ólíklegri til þess að greinast smitaðir af kórónuveirunni eftir að hafa verið berskjaldaðir fyrir smiti.