Árásarmaður sem að sögn breskra fjölmiðla skaut nokkra til bana í Plymouth um sexleytið í dag hóf árásina að því er virðist að tilefnislausu, að sögn vitna sem fréttastofa BBC náði tali af í kvöld.
Lögregluyfirvöld í Bretlandi hafa enn ekki upplýst um hversu margir hafi orðið fyrir skoti, né heldur hversu margir hafi látist í árásinni.
„Fyrst heyrði ég öskur og síðan þrjú byssuskot – þrjú eða kannski fjögur til að byrja með. Þetta var þegar árásarmaðurinn sparkaði upp húsdyrum og byrjaði allt í einu að skjóta. Hann hljóp frá húsinu og skaut á hlaupum, síðan skaut hann nokkra á göngugötunni þegar hann var á hlaupum,“ segir Sharon, vitni að árasinni sem býr í nágrenninu.
Hún sagði árásarmanninn hafa haldið á Royal Navy-stræti þar sem hann lét skotin enn dynja á fólki.
Annað vitni, Robert Pinkerton, gekk í opið flasið á árásarmanninum á götuhorni en hann lýsti því í samtali við BBC að hann hafi „rekist á gaur með byssu“.
Luke Pollard, fulltrúi Plymouth Sutton and Devonport í breska þinginu, lýsti því yfir á Twitter í kvöld að St. Marks-kirkjan og grunnskólinn Ford á Cambridge-stræti verði opin klukkan níu á morgun. Þar geti bæjarbúar safnast saman og minnst fórnarlamba árásarinnar.
Tomorrow from 9am I’m grateful to Ford Primary School and St Marks Church on Cambridge Road for agreeing to open their doors to the community. I’ll be there with local councillors and Police. Open to all for a safe place for our community to come together #keyham
— Luke Pollard MP (@LukePollard) August 12, 2021