„Byrjaði allt í einu að skjóta“

Nokkrir eru látnir eftir skotárásina í Plymouth. Myndin tengist fréttinni …
Nokkrir eru látnir eftir skotárásina í Plymouth. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Árásarmaður sem að sögn breskra fjölmiðla skaut nokkra til bana í Plymouth um sexleytið í dag hóf árásina að því er virðist að tilefnislausu, að sögn vitna sem fréttastofa BBC náði tali af í kvöld.

Lögregluyfirvöld í Bretlandi hafa enn ekki upplýst um hversu margir hafi orðið fyrir skoti, né heldur hversu margir hafi látist í árásinni.

„Fyrst heyrði ég öskur og síðan þrjú byssuskot – þrjú eða kannski fjögur til að byrja með. Þetta var þegar árásarmaðurinn sparkaði upp húsdyrum og byrjaði allt í einu að skjóta. Hann hljóp frá húsinu og skaut á hlaupum, síðan skaut hann nokkra á göngugötunni þegar hann var á hlaupum,“ segir Sharon, vitni að árasinni sem býr í nágrenninu.

Hún sagði árásarmanninn hafa haldið á Royal Navy-stræti þar sem hann lét skotin enn dynja á fólki.

Annað vitni, Robert Pinkerton, gekk í opið flasið á árásarmanninum á götuhorni en hann lýsti því í samtali við BBC að hann hafi „rekist á gaur með byssu“.

Kirkja og grunnskóli opna dyr sínar fyrir samverustund

Luke Pollard, fulltrúi Plymouth Sutton and Devonport í breska þinginu, lýsti því yfir á Twitter í kvöld að St. Marks-kirkjan og grunnskólinn Ford á Cambridge-stræti verði opin klukkan níu á morgun. Þar geti bæjarbúar safnast saman og minnst fórnarlamba árásarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert