„Ofboðslega erfitt að horfa upp á þetta“

Una starfaði á upplýsingaskrifstofu höfuðstöðva NATO í Kabúl.
Una starfaði á upplýsingaskrifstofu höfuðstöðva NATO í Kabúl. Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir

„Ég held að við öll sem höfum unnið og starfað í Afganistan, sama af hvaða þjóðerni fólk er, deilum mjög blendnum tilfinningum núna. Það er ofboðslega erfitt að horfa upp á þetta,“ segir Una Sighvatsdóttir en hún starfaði á upplýsingaskrifstofu höfuðstöðva NATO í Kabúl, höfuðborg Afganistan, á árunum 2016-2018.

Una að störfum í Afganistan.
Una að störfum í Afganistan. Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir

Talibanar auka nú umsvif sín hratt í Afganistan og segir Una í samtali við mbl.is að hún finni fyrir einhvers konar ábyrgð og sektarkennd. „Það er mjög erfitt að horfa upp á þetta og veldur mér talsverðri vanlíðan,“ segir Una og nefnir líka sérstaklega þá alþjóðlegu hermenn sem sáu fram á mikið mannfall þegar þeir voru að vernda ákveðin svæði sem séu nú komin í hendur talibana. 

„Það hlýtur að svíða og þeir spyrja sig, til hvers var unnið ef allt gengur til baka núna.“

Óhugnanlegur framgangur

Una segir hluta af vandamálinu hernaðarlega vera stærð landsins en það nær yfir 650 þúsund ferkílómetra og er því meira en sex sinnum stærra en Ísland. Þá er landið einnig mjög strjálbýlt. Nefnir Una að litakort sem sýni yfirráð talibana í Afganistan geti því verið villandi. 

„Það að hafa yfirráð yfir einhverju landsvæði er ekki það sama og að hafa yfirráð yfir fólki eða samfélaginu. Þetta eru mjög óhugnanlegar fréttir sem eru að birtast núna og það hversu hraður framgangur talibana er, en þar með er Kabúl ekki endilega að fara að falla alveg á næstunni,“ segir Una en hersveitir talibana hafa náð meira en fjórðungi héraðshöfuðborga landsins á sitt vald, ellefu af 34. Una segir sumar þessara borga vera smáar og lítið herlið sem verndi þær. 

Una í borgarvirkinu í Herat. Virkið er á heimsminjaskrá UNESCO.
Una í borgarvirkinu í Herat. Virkið er á heimsminjaskrá UNESCO. Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir

Una segir þó að fréttir sem bárust í dag af því að héraðshöfuðborgin Herat væri fallin í hendur talibana væru eins og högg í magann en hún fór meðal annars í vinnuferð til borgarinnar. Herat er þriðja stærsta borg Afganistan og hefur lengi verið ein öruggasta og friðsamasta borg Afganistan að sögn Unu.

Óska eftir frið og stöðugleika

Una segir afgönsku þjóðina vera mjög fjölbreytta og því alls ekki einnar skoðunar um hvar menn standi í deilunni. „Ég held samt að nánast hvern sem þú spyrð þá vilji þjóðin frið og stöðugleika og hefur viljað það lengi.“

Talibanar réðu ríkjum í landinu frá 1996 þar til þeir lutu í lægra haldi fyrir innrásarher vesturveldanna í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum árið 2001. Segir Una að þjóðin hafi ekki endilega fagnað komu talibana á tíunda áratugnum, en menn hafi sumir vonast eftir að þeir færðu landinu stöðugleika en allt frá lokum áttunda áratugarins hefur verið stríð eða stríðsástand í Afganistan. 

„Hins vegar fylgdi þeim þessi ofboðslega harðstjórn sem flestir sáu fyrir og þeir hafa ekki orðið mildari.“

Una ásamt þýskum hermönnum í héraðshöfuðborginni Kunduz sem hefur nú …
Una ásamt þýskum hermönnum í héraðshöfuðborginni Kunduz sem hefur nú fallið í hendur talíbana. Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir

Of hættulegt að ferðast á þjóðvegunum

Una ferðaðist töluvert um landið í starfi sínu en það var alltaf með flugvélum og þyrlum. „Það hefur verið þannig í mörg ár að fólk ferðast ekki á þjóðvegunum því það er einfaldlega of hættulegt. Þjóðin hefur búið við þetta ástand í fjölda ára. Talibanar eru búnir að vera þarna lengi og hafa haft ákveðin svæði undir sinni stjórn eða verið talsvert að þjarma að þeim.“ 

Hreyfing talibana kviknaði að öllum líkindum meðan á hernaði Sovétríkjanna stóð í Afganistan frá 1979 til 1989.

Una starfaði með fólki frá ólíkum þjóðum.
Una starfaði með fólki frá ólíkum þjóðum. Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir

Fjölgun hælisleitenda

Búast má við miklum fjölda hælisleitenda frá Afganistan á næstu misserum og segir Una að kollegar hennar frá Bretlandi og Bandaríkjunum séu strax farnir að fá fyrirspurnir frá Afgönum, sem unnu fyrir þá sem túlkar eða annað slíkt, um hvernig sé best að fá hæli. 

„Þetta fólk er alveg ofboðslega hrætt og hefur ærna ástæðu til,“ segir Una, en talibönum er sérstaklega illa við alla þá sem störfuðu fyrir alþjóðlega aðila og telja þá vera svikara. 

„Margir kollegar mínir eru reiðir yfir að það sé verið að skilja Afgana eftir sem unnu fyrir þá í góðri trú um betri framtíð en þurfa nú að bíða örlaga sinna. Ég finn fyrir mikilli sektarkennd yfir því hvað það var auðvelt fyrir mig að komast í burt. Ég fæ innilokunarkennd af að hugsa um að vera í þeirri stöðu sem fólkið er í.“

Engin augljós lausn

„Ég upplifði það mjög sterkt á meðan ég var þarna að það er ekki til nein augljós lausn á þeim ofboðslega rembihnút sem Afganistan er. Jafnvel fólk sem hafði helgað líf sitt og ævistarf framtíð Afganistan gat ekki sagt með fullri vissu hver besta leiðin væri. Þetta er ofboðslega flókin staða,“ segir Una og nefnir að innviðir landsins séu mjög frumstæðir og það taki langan tíma að byggja þá upp en það var eitt af markmiðum Vesturlanda með komunni til landsins.

Una ásamt flugmanninum Naiem Asadi sem hefur fengið hæli í …
Una ásamt flugmanninum Naiem Asadi sem hefur fengið hæli í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir

„Þetta þarf að vera orðið þannig að kynslóðir geti kennt hvor annarri. Þetta var ekki komið það langt enn þá,“ segir Una en Bandaríkjaher er nú á förum frá Afganistan eftir tuttugu ára dvöl. Hún segir mjög erfitt að spá um hvernig ástandið muni þróast.

Þykir vænt um land og þjóð

„Þegar ég var þarna kynntist ég meðal annars ungum konum sem voru fullar af eldmóði að mennta sig og sem ég dáðist að. Ég gerði mér grein fyrir hvað þær voru í miklu erfiðari stöðu en ég. Núna finnst mér eins og sú litla von sem þær höfðu um einhverja framtíð sé horfin, allavega ef allt fer á versta veg.“

Una segir að lokum að henni þyki gríðarlega vænt um Afganistan og finnist miður hvað áhugi fólks er oft lítill á landinu. „Maður upplifir það sterkt hvað almenningur þarna er einn og einangraður. Það er eiginlega enginn sérstaklega að pæla mikið í hvað bíður þeirra. Mér finnst sárt að finna það og ég get rétt ímyndað mér hvernig Afgönum líður sjálfum.“

„Þegar ég var þarna kynntist ég meðal annars ungum konum …
„Þegar ég var þarna kynntist ég meðal annars ungum konum sem voru fullar af eldmóð af mennta sig sem ég dáðist að,“ segir Una. Ljósmynd/Una Sighvatsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert