Bresk stjórnvöld munu senda 600 hermenn til Kabúl, höfuðborgar Afganistan, til þess að aðstoða starfsfólk breska sendiráðsins við að yfirgefa landið.
Bandaríkin hafa gripið til sama ráðs og munu senda um 3.000 hemenn til Kabúl-flugvallar til þess að aðstoða starfsfólk bandaríska sendiráðsins við að snúa aftur til Bandaríkjanna.
Hersveitir Bandaríkjamanna munu ekki nota flugvöllinn sem bækisstöð og beita Talíbana loftárárásum þaðan, að því er fram kemur í tilkynningu frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu.
Talíbanar nálgast borgina nú óðum en þegar hafa þeir náð yfirráðum í borginni Ghazni, sem er staðsett aðeins 150 kílómetrs frá Kabúl. Ekkert lát er á átökum sem geisað hafa milli stjórnarhers Afganistan og Talíbana um nokkurt skeið.
Starfslið breska sendiráðsins í Kabúl er orðið fámennt og hefur einungis unnið að því að útvega landvistarleyfi fyrir þá sem þurfa að yfirgefa landið, að sögn breska varnarmálaráðuneytisins. Á föstudaginn síðastliðinn ráðlagði utanríkisráðuneyti Bretlands Bretum sem staðsettir eru í Kabúl að yfirgefa borgina hið snarasta.
Hersveitir sem sendar verða á vettvang munu vernda breska ríkisborgara og veita þeim stuðning, auk þess að flytja afganska bandamenn breska hersins til Bretlands í öruggt skjól. „Við munum sjá til þess að túlkar og aðrir afganskir starfsmenn, sem hafa hætt lífi sínu í þágu breska hersins í Afganistan, geti flúið til Bretlands eins fljótt og auðið er,“ segir í tilkynningu frá varnarmálaráðuneyti Bretlands.
Evrópusambandið mun beita Talíbana þvingunum muni þeir halda áfram að sölsa undir sig landsvæði með valdi, að sögn Joseps Borrel, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins.
„Ef áfram heldur sem horfir og Íslamska ríkið verður endurreist munu Talíbanar ekki verða viðurkenndir af alþjóðasamfélaginu. Þeir verða einangraðir úr alþjóðasamfélaginu og munu þurfa að mæta afleiðingum áframhaldandi átaka í Afganistan,“ segir Borrel í tilkynningu.
Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að viðhalda því sem hefur áunnist í jafnréttismálum í Afganistan síðustu tvo áratugina, þar á meðal rétt kvenna til að mennta sig. ESB fordæmi mannréttindabrot á yfirráðasvæðum Talíbana. Þá hvetur ESB jafnframt afgönsk stjórnvöld til að ná tökum á ástandinu á samheldan hátt.
Stjórnvöld í Kabúl hafa boðið samningamönnum Talíbana í Katar að þau deili völdum með Talíbönum gegn því að bardögum linni, að sögn ónafngreinds heimildarmanns innan starfsliðs ríkisstjórnarinnar í Doha, höfuðborg Katar.