Byssuleyfi Jake Davison, sem myrti fimm í Plymouth í gær, var afturkallað af lögreglu í desember en hann fékk það endurheimt fyrir mánuði eftir að hann fór í meðferð gegn reiðivandamálum.
Byssulöggjöf í Bretlandi er stundum lýst sem þeirri ströngustu í heimi en leyfishafi þarf að hafa sérstakt skírteini til þess að eiga skotvopn. Rannsókn er því hafin hjá embætti sem hefur eftirlit með störfum lögreglu sem snýr að því af hverju lögreglan endurheimti leyfið.
Davison, sem var 22 ára, gaf sig að Incel-samfélaginu sem er hópur manna á netinu sem geta ekki náð sér í konur og hafa því andúð á þeim. Þá hafði Davison sérstakan áhuga á skotárásum og byssum.
Íbúi í Plymouth sem þekkti til Davison segir að fjölskylda hans hafi leitað aðstoðar vegna geðrænna vandamála Davison. Ásetningur árásarinnar í gær er því talinn vera samblanda af hatri Davison á konum og geðrænum vandamálum hans.
Davison hóf árásina á því að skjóta móður sína Maxine, sem var 51 árs, áður en hann skaut Lee Martyn og þriggja ára dóttur hans. Þá skaut hann Stephen Washington og Kate Shepherd áður en hann skaut sjálfan sig til bana.
Árásin er sú versta í Bretlandi í tíu ár en hún tók einungis tólf mínútur.
Mikill fjöldi kom saman í Plymouth í kvöld til að minnast fórnarlambanna.