Flytja á brott starfsmenn bandaríska sendiráðsins

Um þrjú þúsund bandarískir hermenn eru nú á leið til Afganistans til að hjálpa við brottflutning þúsunda manna. Meðal þeirra sem á að flytja úr landi eru sendiráðsstarfsmenn og Afganar og fjölskyldur þeirra sem unnu fyrir Bandaríkjamenn, í ljósi þess að talíbanar þjarma að Kabúl, höfuðborg landsins. 

Talíbanar hafa náð völdum yfir mörgum stærstu borgum landsins og eru nú í einungis 50 kílómetra fjarlægð frá Kabúl. 

Bandaríska sendiráðið í Kabúl.
Bandaríska sendiráðið í Kabúl. AFP

Starfsmenn bandaríska sendiráðsins vinna nú að því að eyðileggja viðkvæm gögn. Þá er einnig verið að vinna að brottflutningi starfsmanna sendiráða Breta, Þjóðverja, Dana og Spánverja.

„Ég græt alla daga og nætur“

Um fimm þúsund bandarískir hermenn hafa einnig verið sendir til Katar og Kúveit til að aðstoða við landvistarleyfi afganskra túlka sem óttast refsingu talíbana fyrir að vinna fyrir Bandaríkjamenn.

Þúsundir Afgana reyna nú að leita sér hælis frá Kabúl. „Ég græt alla daga og nætur,“ segir Muzhda, 35 ára einhleyp kona, í samtali við AFP-fréttaveituna. „Ég hef hafnað beiðnum um giftingu áður. Ef talíbanarnir koma og neyða mig til giftingar mun ég fremja sjálfsmorð.“

Þúsundir reyna nú að flýja Afganistan.
Þúsundir reyna nú að flýja Afganistan. AFP

Kanadísk stjórnvöld greindu frá því í gær að þau ætli að taka við allt að 20 þúsund flóttamönnum frá Afganistan. Lögð verður áhersla á að taka á móti konum í leiðtogastöðum, ríkisstarfsmönnum og öðrum sem stafar ógn af talíbönum.

Marco Mendicino, ráðherra innflytjendamála í Kanada, segir stöðuna í Afganistan skelfilega og Kanadastjórn ætli ekki að sitja aðgerðarlaus hjá.

Frétt á vef The Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert