Háskólamenn réttdræpir í Afganistan

Árni Arnþórsson er aðstoðarrektor American University of Afghanistan í Kabúl.
Árni Arnþórsson er aðstoðarrektor American University of Afghanistan í Kabúl. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er gífurlega erfið staða fyrir almenna borgara í Afganistan,“ segir Árni Arnþórsson, aðstoðarrektor American University of Afghanistan í Kabúl, um stöðuna sem hefur myndast í landinu í kjölfar stórsóknar talíbana.

Árni hefur starfað hjá háskólanum síðan árið 2019 en er nú í fjarvinnu frá Madríd á Spáni þar sem hann á fjölskyldu. Hann segir að stefnt sé að því að halda háskólanum opnum eins lengi og hægt er en skólaönnin byrjar í lok ágúst.

Nú er verið að undirbúa brottflutning þeirra fáu erlendu starfsmanna sem eru enn í Kabúl að sögn Árna svo öll kennsla verði fjarnám. 

„Við vitum ekki hvort stjórnin mun halda og hvernig þetta verður næstu vikurnar. Ef talíbanar komast alveg til valda munu þeir líklega stöðva alla starfsemi sem hefur tengingu við umheiminn, sérstaklega gagnvart háskólum líkt og okkar,“ segir Árni og bætir við að talíbanar hafi gefið út yfirlýsingu um að þeir sem vinni fyrir háskólann séu réttdræpir og skólinn ætti ekki að vera til.

Hann segir að ef einhver sátt myndist á milli talíbana og stjórnarinnar gæti háskólinn mögulega fengið að starfa áfram.  

Þróast hratt á tveimur vikum

Árni var síðast í Afganistan frá miðjum apríl þar til í lok júní og segir hann ástandið hafa verið allt annað þá.

„Þetta ástand sem er í dag hefur raun gerst á tveimur vikum. Þegar ég var þarna í lok júní höfðu menn vissulega áhyggjur og fólk var að undirbúa ýmsa möguleika en það bjóst enginn við því að þetta myndi ganga svona rosalega hratt eins og það hefur gert,“ segir Árni og nefnir að sérfræðingar jafnt sem almennir Afganar hafi ekki spáð þessu.

Kúgun og einangrun

Spurður hvernig það hafi gerst að talíbanar hafi aukið umsvif sín svo hratt segir Árni það vera með ákveðinni kúgun og að beita einangrun.

„Stórmunurinn á því þegar talíbanar eru við völd og þegar múslimar eru við völd er öðruvísi spilling. Þegar talíbanar eru við völd snarminnka hlutir eins og glæpir og spilling. Refsingarnar eru svo harðar og þeir eru svo grófir og skelfingin er það mikil að það þorir enginn að gera neitt. Þá hefja þeir að ákveðnu leyti upp þá sem eru fátækir með því að gefa þeim pening. Þeir eru rosa klárir í því að sannfæra fólk sem er vanmáttugt,“ segir Árni og nefnir til dæmis að ungir menn sem þrái völd freistist margir til að ganga til liðs við talíbana.

Talíbanar hafa náð að sigra nærst stærstu borg landsins, Kandhar.
Talíbanar hafa náð að sigra nærst stærstu borg landsins, Kandhar. AFP

„Þú gefur fátæku, lítið menntuðu fólki sem hefur haft litla möguleika í lífinu og fundið fyrir að það sé litið niður á það einhverja ákveðna hluti og nærð þannig völdum,“ segir Árni og nefnir að menntun sé það sem talíbönum finnst hættulegast. „Því minna sem fólk er menntað, því auðveldara er að hafa völd yfir því.“

Mikil hræðsla

Allir nemendur háskólans eru Afganar og segir Árni hljóðið í nemendum mjög þungt. „Þau eru mjög hrædd.“

Árni nefnir stúlku sem honum hafi borist fréttir af en hún og hennar fjölskylda búa rétt fyrir utan Kandahar sem er næststærsta borg Afganistans og féll í hendur talíbana í gær. „Þau eru búin að byrgja húsið og vonast til að enginn ráðist inn á sama tíma og enginn fer út.“

Nemendur Árna eru allir Afganir.
Nemendur Árna eru allir Afganir. Ljósmynd/Aðsend

Stúlkur fá að mennta sig til 10 eða 11 ára aldurs

Árni segir að stúlkur eigi sérstaklega erfitt uppdráttar undir stjórn talíbana en þeir leyfa þeim að mennta sig þar til þær eru 10 eða 11 ára. „Það eru þó tvær leiðir fyrir konur til að stunda áframhaldandi nám en það er annaðhvort að verða kennari eða læknir. Það er hins vegar valið mjög sérstaklega hverjir fá þann möguleika.“

Konum er skilt að klæðast búrkum samkvæmt reglum talíbana.
Konum er skilt að klæðast búrkum samkvæmt reglum talíbana. AFP

Þá nefnir Árni að ef talíbanar ná völdum muni öll sú menntun sem kvenkyns nemendur hans fá skipta litlu sem engu máli og að þær þurfi að fara í felur til þess að halda lífi. „Það er nokkuð sem við sem Vesturlandabúar getum hreinlega ekki skilið.“

Stjórnvöld eiga erfitt uppdráttar

Spurður hvort hann telji að Kabúl muni falla í hendur talíbönum segir Árni það vera flókið að spá um.

„Spáin frá þeim sem ég er í sambandi við er sú að talíbanar muni umkringja Kabúl. Hálfgert umsátur þar sem þeir munu loka öllum leiðum inn og út úr borginni til þess að setja það mikla pressu á stjórnina að hún verði að samþykkja einhvers konar sátt sem yrði talíbönum í hag. Svo er hins vegar möguleiki á því að stjórnin hreinlega yfirgefi landið og þá eru talíbanar óáreittir í Kabúl.“

Stjórnarher Afganistan hefur átt erfitt uppdráttar.
Stjórnarher Afganistan hefur átt erfitt uppdráttar. AFP

Árni segir að stjórnin eigi mjög erfitt uppdráttar og sé að liðast í sundur er ráðherrar ríkisstjórnarinnar yfirgefa landið, en tveir hafa nú þegar gert það. Því hafi samstarfsmaður Árna allt í einu orðið fjármálaráðherra þar sem fyrrverandi ráðherrann flúði.

„Hann er hins vegar nú að vinna í því að senda fjölskyldu sína til Dúbaí og fer ábyggilega á eftir þeim sjálfur þegar hann hefur tækifæri.“

Þá nefnir Árni að einnig sé nýverið búið að reka hernaðarmálaráðherra landsins en hann er fjórði eða fimmti sem hefur hlotið þau örlög á síðustu tíu mánuðum.

Með skotmark á bakinu

„Það sem margir Afganar hafa nú miklar áhyggjur af er að pólitíski armurinn segir eitt en hernaðurinn segir annað þar sem ofstækið er svo mikið. Pólitíski armurinn hefur ekki stjórn á því. Það getur vel verið að talíbanar segi að þeir ætli inn í Kabúl og þar verði enginn drepinn, en það þýðir ekki endilega að það muni ekki gerast,“ segir Árni og nefnir að þeir sem hafi unnið fyrir vestræn ríki og sérstaklega Bandaríkin séu með skotmark á bakinu, þar með talið starfsfólkið í háskólanum.

Segir þá sem hafa unnið fyrir vestræn ríki með skotmörk …
Segir þá sem hafa unnið fyrir vestræn ríki með skotmörk á bakinu. Ljósmynd/Aðsend

Í forsetatíð Donalds Trumps árið 2020 gerðu Bandaríkjamenn samning við talíbana um að hermennirnir yrðu dregnir til baka í skiptum fyrir að talíbanar tækju upp friðarviðræður við stjórnvöld í Afganistan.

„Þeir hafa ekki staðið við það og ætluðu aldrei að gera það, en Trump var alveg nákvæmlega sama um það í raun og veru. Hann vildi bara sýna að hann væri að gera eitthvað til að ljúka hersetu Bandaríkjanna í Afganistan,“ segir Árni og bætir við að Joe Biden, núverandi Bandaríkjaforseti, hafi einnig gert mistök í því hvernig hefur verið staðið að brottförinni.

Hersetan klúður frá upphafi til enda

Þá segir hann að koma bandarískra hermanna árið 2001 hafi verið klúður frá upphafi til enda. „Þeir þykjast vera búnir að þjálfa einhvern rosalega flottan 300 þúsund manna her í Afganistan. Það hefur hins vegar aldrei staðist samkvæmt því sem ég hef heyrt og séð. Þjálfunin hefur verið miklu minni en ætlað var og ýmislegt annað sem hefur ekki staðist. Það sýnir sig á þessum stutta tíma að það stenst engan veginn,“ segir Árni og nefnir að spillingin í kringum alþjóðlegu herina hafi verið gífurleg þar sem stjórnarkerfið í Afganistan sé svo flókið.

„Þó að einhver ríkisstjóri hafi fengið tíu milljónir í að þjálfa upp her er engin leið að vita með fullvissu að allur peningurinn hafi farið í það.

Þetta er allt saman pólitískt og Afganar, sérstaklega konurnar, eru bara lítil peð á taflborði valdamanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert