Forstjóri afgönsku fréttaveitunnar Tolo News, Lotfullah Najafizada, setti inn færslu á Twitter í dag þar sem karlmenn sjást mála yfir myndir af konum sem höfðu verið málaðar á vegg í Kabúl, höfuðborg Afganistans.
Stjórnvöld þar sitja nú við samningaborðið með talíbönum og er ætlun ríkisstjórnarinnar að framselja vald sitt yfir borginni til talíbana, í því skyni að koma í veg fyrir átök. Talíbanar hafa mætt lítilli sem engri mótstöðu í borginni.
Ungar afganskar konur eru sagðar mjög hræddar við það sem koma skal.
Kabul. pic.twitter.com/RyZcA7pktj
— Lotfullah Najafizada (@LNajafizada) August 15, 2021
Þegar talíbanar réðu síðast ríkjum í Afganistan, fyrir árið 2002, voru sjaríalög í gildi í landinu. Þá mátti grýta fólk fyrir framhjáhald, aflima fyrir þjófnað og koma í veg fyrir að stúlkur gætu stundað nám eftir 12 ára aldur. Ekki er víst hvort talíbanar hyggist koma á sömu lögum nú en haft var eftir einum af foringjum þeirra nýverið að dómstólar þyrftu að skera úr um það hvort slíkt mætti.
Talsmaður talíbana sagði í yfirlýsingu í dag að hermenn þeirra myndu virða réttindi kvenna og fjölmiðla. Yfirlýsingin er álitin tilraun talíbana til þess að slá á áhyggjur heimsbyggðarinnar af kvenréttindum í Afganistan. Talsmaðurinn heldur því fram að konum verði áfram leyfilegt að yfirgefa heimili sín án þess að vera í fylgd með karlmönnum og að þær muni geta menntað sig og unnið.
Yfirlýsingin er í mótsögn við fréttir frá svæðum þar sem talíbanar hafa náð völdum á síðustu dögum. Þar er konum ekki hleypt út af heimilum sínum án þess að þær séu í fylgd með karlmönnum. Kvenkyns starfsmenn hafa verið reknir og tjáð að störf þeirra verði nú unnin af karlmönnum. Þá er konum á þessum slóðum einnig skipað að ganga í búrku.
We watch in complete shock as Taliban takes control of Afghanistan. I am deeply worried about women, minorities and human rights advocates. Global, regional and local powers must call for an immediate ceasefire, provide urgent humanitarian aid and protect refugees and civilians.
— Malala (@Malala) August 15, 2021