Tala látinna hækkar í 1.297

Björgunarsveitir þar í landi vinna nú hörðum höndum við að …
Björgunarsveitir þar í landi vinna nú hörðum höndum við að grafa í rústum fallinna bygginga í leit að eftirlifandi einstaklingum. AFP

Tala látinna á Haítí hefur hækkað upp í 1.297 og fjölda fólks er enn saknað en jarðskjálfti, 7,2 að stærð, skók landið í gær. Björgunarsveitir þar í landi vinna nú hörðum höndum við að grafa í rústum fallinna bygginga í leit að eftirlifandi einstaklingum.

Þjóðin hefur ekki enn jafnað sig til fulls eftir að skjálfti af svipaðri stærð skók landið fyrir 11 árum. Þar að auki var forseti landsins, Jovenel Moise, myrtur fyrir rúmum mánuði.

Mörg hús eru nær óþekkjanleg eftir skjálftann.
Mörg hús eru nær óþekkjanleg eftir skjálftann. AFP

Bjargað ásamt dóttur sinni

Skjálftinn varð um 160 kílómetrum frá höfuðborg Haítí, Port-au-Prince. Borgin Les Cayes er meðal borga sem eru nánast óþekkjanlegar eftir skjálftann. Flestir íbúar borgarinnar sváfu í nótt undir berum himni fyrir framan húsin sín, eða það sem er eftir af þeim, vegna hræðslu á eftirskjálftum.

„Ég þakka Guði og einnig símanum mínum að ég skuli enn vera á lífi,“ sagði Marcel Francois, íbúi borgarinnar sem var bjargað úr rústum tveggja hæða húss síns. Yngri bróðir hans Job sagðist hafa heyrt í ópum bróður síns þegar hann kallaði: „Bjargaðu mér, ég er undir steypunni.“ Marcel var þar ásamt 10 ára dóttur sinni og áttu þau erfitt með að anda. Nágrönnum Marcels og Job tókst loks, eftir nokkrar klukkustundir, að grafa þau upp.

Uppfært: 22:30

Upphaflega sagði að 724 hafi látist en samkvæmt uppfærðum tölum yfirvalda á Haítí hafa nú 1.297 fundist látnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert