„Þetta ástand snertir okkur öll“

Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, segir algjört stjórnleysi í Kabúl …
Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, segir algjört stjórnleysi í Kabúl yfirvofandi. Erna Solberg forsætisráðherra segir ríkisstjórnina fyrst og fremst upptekna af því að koma Norðmönnum í Afganistan og starfsmönnum norska sendiráðsins í Kabúl heilum heim hvað sem það kosti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, fordæmir framrás talíbana í Afganistan harðlega og segir ástandið snerta fleiri en íbúa þar í landi. „Í þessum töluðu orðum er það ekki ljóst hver stendur við stjórnvölinn í Kabúl. Við gætum staðið frammi fyrir algjöru stjórnleysi í borginni sem er stóralvarlegt ástand og breytilegt milli hvers klukkutímans sem líður,“ sagði ráðherra á blaðamannafundi í Ósló í dag.

Kvað ráðherra norsk stjórnvöld hvetja stríðandi fylkingar sem mest má vera til að forðast ofbeldi og átök og hlífa almennum borgurum í Kabúl við þjáningum.

Fyrr í kvöld greindi Reuters-fréttastofan frá því að talíbanar hefðu náð forsetabústaðnum í Kabúl á sitt vald auk þess sem sendiráð Bandaríkjanna í borginni greindi frá vopnuðum átökum á flugvelli borgarinnar. Søreide utanríkisráðherra staðfesti í dag að Noregur og Eistland hefðu krafist neyðarfundar öryggisráðs Sameinuðu þjóðana sem að sögn Reuters verður haldinn í fyrramálið.

Solberg upptekin af að koma Norðmönnum heim

„Sem stendur er alls óvíst hvað kemur út úr þeim fundi og hver lokaniðurstaðan verður,“ segir Søreide, „og alþjóðasamfélagið getur enn sem komið er ekkert sagt um það hvernig það taki nýrri ríkisstjórn Afganistans þar sem talíbanar eigi hugsanlega aðild, þeir munu bera þar ábyrgð, meðal annars á réttindum kvenna og stúlkna,“ segir ráðherrann enn fremur.

Erna Solberg forsætisráðherra segir ríkisstjórnina fyrst og fremst upptekna af því að koma Norðmönnum í Afganistan og starfsmönnum norska sendiráðsins í Kabúl heilum heim. „Þetta er algjört forgangsmál ríkisstjórnarinnar og utanríkisráðuneytisins, að fá þá sem þarna eru á brott. Hvort tveggja Norðmenn og þá sem starfað hafa fyrir sendiráðið. Alla verður að flytja til Noregs sem fyrst,“ lét Solberg hafa eftir sér.

„Full ástæða til að óttast“

Kristian Berg Harpviken, talsmaður friðarrannsóknastofnunarinnar Prio, sagði í dag í samtali við NRK að verið gæti nánast spurning um klukkustundir hvenær talíbanar hefðu töglin og hagldirnar í Afganistan. „Samningsvilji þeirra segir í raun allt, lýsi þeir sig reiðubúna til að mynda ríkisstjórn með utanaðkomandi aðilum er það jákvætt merki, tákn um að þeir gætu hugsað sér að deilda valdi sínu með öðrum,“ segir Harpviken.

Jonas Gahr Støre, leiðtogi norska Verkamannaflokksins, segir fréttirnar frá Afganistan vekja óbeit og ótta um að landið verði fríríki hryðjuverkamanna. „Hér er full ástæða til að óttast að talíbanar og þeir sem stjórna munu Afganistan gefi hryðjuverkasamtökum á borð við Ríki íslams og al Qaida lausan tauminn. Þessu verður alþjóðasamfélagið, og ekki síst nágrannaríki Afganistans, að taka af fullri varúð,“ skrifar Støre á Facebook-síðu sína.

NRK

VG

VGII (við getum ekki ábyrgst öryggi þeirra)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert