Breskur nemi heimsótti Afganistan á versta tíma

„Ákvað að hoppa niður til Afganistan í nokkra daga, aldrei …
„Ákvað að hoppa niður til Afganistan í nokkra daga, aldrei farið áður. Er bara að slæpast um og baða mig í sólinni. Virðist friðsamlegri en London fyrir mér. Spyrjið mig að hverju sem er.“ Ljósmynd/Facebook

Ungur Breti hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum og umræðuvefjum síðasta sólarhringinn, eða eftir að hann birti mynd af sér í fríi í Kabúl um helgina. Breska götublaðið Mirror greinir frá.

Sá sem um ræðir heitir Miles Routledge og er 21 árs nemi við Loughborough-háskólann, nær Birmingham, og segist hann nú dvelja í skjólshúsi (e. safe house) Sameinuðu þjóðanna í Kabúl meðan hann leitar hjálpa breskra stjórnvalda við að flýja landið.

„Er bara að slæpast“

Í fyrstu virtist Routledge ekki gera sér grein fyrir alvarleika stöðunnar í landinu, þar sem talíbanar hafa hratt hrifsað til sín völd yfir helstu borgum. Í færslu á vefnum 4chan síðasta föstudag segir hann:

„Ákvað að hoppa niður til Afganistan í nokkra daga, aldrei farið áður. Er bara að slæpast um og baða mig í sólinni. Virðist friðsamlegri en London fyrir mér. Spyrjið mig að hverju sem er.“

Einn svarar honum og segir: „Ert þú einn af 600 breskum hermönnum sem voru sendir til þess að hjálpa til við að flytja samlanda þína? Myndi koma mér út áður en þeir eru farnir á brott ef ég væri þú,“ en hermennirnir bresku komu til landsins í gærkvöldi ef marka má færslu Facebook-síðunnar British Armed Forces News sem sérhæfir sig í fréttum af breska hernum.

Þóttist vera lávarður

Routledge hefur verið kallaður „lad“ af ýmsum netverjum sem gera grín að því hvernig honum tókst að falsa skjöl til að fá heitið „lord“ fyrir framan nafnið sitt á kreditkortinu sínu. Samkvæmt því er hann því „Miles Routledge lávarður“. Hann sagði að ef á versta veg færi gæti hann að minnsta kosti þóst vera lávarður, sem í augum talíbana myndi gera hann að verðmætum gísl.

Um ástæður þess að hann hafi viljað fara til Afganistan til að byrja með segist hann hafa viljað gera það áður en hann útskrifaðist úr háskóla og færi í fullt starf og eignaðist fjölskyldu. „Ég hata að liggja á strönd, vildi gera eitthvað öðruvísi,“ segir hann í samtali við The Times. Hann er þó sagður dauðsjá eftir þessu og að hann hafi á tímabili sætt sig við að hann væri búinn að vera.

Ljósmynd/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert