Hvers vegna barðist afganski herinn ekki á móti?

Það var ekki aðeins af völdum herstyrks talibana hve hratt þeir náðu að taka yfir Afganistan. Þvert á móti beittu þeir mestmegnis áróðri, tálbeitum og hótunum á meðan þeir tóku yfir mikilvægustu borgir landsins en í gær náðu þeir völdum í höfuðborginni Kabúl nánast átakalaust.

Þegar Bandaríkin hófu að draga herlið sitt úr landinu í maí voru stjórnvöld þar í landi og Afganistan fullviss um að afganski herinn myndi standa traustum fótum gegn talibönum.

Herinn leit vel út á blaði, með ríflega 300.000 manns og margra milljarða dollara forskot á vopnabúr talibana. Herinn var aftur á móti þjakaður af spillingu, lélegri forystu og skorti á þjálfun. Starfsandi innan raða hersins var ekki góður og hafði verið þannig í mörg ár á undan. Liðhlaup voru algeng og helstu sérfræðingar í Washington höfðu lengi vel varað við óstöðugleika afganska hersins.

Talíbanar standa vörð á strætum Kabúl í dag en þeir …
Talíbanar standa vörð á strætum Kabúl í dag en þeir tóku yfir borgina í gær. AFP

Áróður um „óhjákvæmilegan sigur talibana“

Herinn stóð sig þó vel í mörgum hverjum orrustum í sumar, til að mynda í Lashkar Gah í suðurhluta landsins. Nú stóð þó herinn þó einn á móti talibönunum án hjálpar Bandaríkjahers.

Margir hermenn og jafnvel heilu hersveitirnar stungu af eða gáfust upp á meðan talibönum tókst að ná völdum í borg eftir borg.

Þegar Bandaríkjastjórn ákvað í fyrra að draga allt herlið sitt til baka var fræjunum sáð. Upphaf sigurs talibana eftir tveggja áratuga stríð. Fyrir marga Afgana var litið á ákvörðun Bandaríkjanna sem svik og að verið væri að yfirgefa íbúana. 

Talibanar héldu áfram að ráðast á stjórnarherinn en hófu þar að auki markvisst að ráðast á og myrða blaðamenn og aðgerðarsinna til að skapa ótta í samfélaginu. Þá snerist áróður þeirra um óhjákvæmilegan sigur talibana. Hermenn og embættismenn eru sagðir hafa verið hvattir til að gefast upp eða vinna með talibönum til að forðast verri örlög.

Margir hermenn og jafnvel heilu hersveitirnar stungu af eða gáfust …
Margir hermenn og jafnvel heilu hersveitirnar stungu af eða gáfust upp meðan Talíbönum tókst að ná völdum í borg eftir borg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert