Hvikar hvergi frá ákvörðun sinni

Joe Biden Bandaríkjaforseti varði ákvörðun sína um að draga til baka bandarískt herlið frá Afganistan. Í ávarpi til þjóðar sinnar sagðist hann standa við þá stefnu og að tími væri kominn til brottfarar, eftir tuttugu ár af átökum.

„Ég er forseti Bandaríkja Norður-Ameríku og ábyrgðin er á endanum mín,“ sagði Biden í ávarpinu, sem beðið hafði verið eftir í kjölfar nokkurra daga þagnar hans um sviptingarnar í landinu.

Biden sagðist „virkilega hryggur“ yfir atburðum liðinna daga og lofaði að „láta í sér heyra“ varðandi réttindi þeirra kvenna sem nú horfa fram á ógnarstjórn og kúgun talíbana í landinu.

Biden sagðist myndu verja sitt fólk af miklum mætti.
Biden sagðist myndu verja sitt fólk af miklum mætti. AFP

Féll fyrr en hann bjóst við

Á sama tíma var hann staðfastur þegar hann ítrekaði að hann sæi ekki eftir því að hafa dregið herliðið til baka, þrátt fyrir feikimikla gagnrýni á þá óreiðu sem einkennt hefur brottför herliðsins úr landinu.

„Ég stend ákveðinn á bak við ákvörðun mína,“ sagði hann. „Eftir tuttugu ár, þá hef ég lært það á erfiða mátann að það var aldrei góður tími til að draga bandaríska herliðið til baka.“

Forsetinn viðurkenndi að ríkisstjórn landsins hefði fallið skjótar en hann hafði búist við. Gaf hann í skyn að hana hefði skort viljann til að veita talíbönum viðnám.

„Sannleikurinn er sá, að þetta þróaðist hraðar en við höfðum vænst,“ bætti hann við.

„Við gáfum þeim öll tækifærin til að kjósa sína eigin framtíð. Við gátum ekki fært þeim viljann til að berjast fyrir þeirri framtíð.“

Biden ávarpaði þjóð sína varðandi þróun mála í Afganistan.
Biden ávarpaði þjóð sína varðandi þróun mála í Afganistan. AFP

Hótaði eyðileggingarmætti

Loks ítrekaði hann að hagsmunir Bandaríkjanna af afskiptum í Afganistan hefðu alltaf snúist um að hindra árásir hryðjuverkamanna á sjálf Bandaríkin. Þau myndu áfram bregðast fljótt og örugglega við hvers kyns hryðjuverkaógn sem af landinu stafaði.

Um leið varaði hann talíbana við því að trufla eða ógna flutningi þúsunda Bandaríkjamanna og Afgana frá landinu í gegnum flugvöllinn í Kabúl. Þeir flutningar séu fyrirhugaðir næstu daga.

„Við munum verja okkar fólk með eyðileggingarmætti, reynist það nauðsynlegt.“

Sjá ávarp forsetans í heild sinni:

Forsetinn svaraði ekki spurningum fjölmiðla að loknu ávarpinu, heldur gekk …
Forsetinn svaraði ekki spurningum fjölmiðla að loknu ávarpinu, heldur gekk á brott. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert