Öllum flugferðum frá Kabúl aflýst

Mikil örtröð var á flugvellinum í Kabúl í gær og …
Mikil örtröð var á flugvellinum í Kabúl í gær og í nótt. AFP

Öllum almennum flugferðum frá Kabúl, höfuðborg Afganistans, var aflýst í morgun eftir að þar hafði skapast mikil ringulreið. Þúsundir leituðu sér að leið út úr landinu í gær og í nótt eftir að völd Talíbana jukust.

AFP greinir frá.

Talíbanarnir tóku yfir forsetahöllina eftir að forseti landsins, Ashraf Ghani, flúði landið í gær.  Ótrúlega fljótt fall ríkisstjórnarinnar vakti ótta og örvinglun á meðal almennra borgara. Á einungis tíu dögum hafa Talíbanar náð að sölsa til sín svo til öll völd í Afganistan.

Bandaríkjamenn stóðu vörð á flugvellinum í morgun.
Bandaríkjamenn stóðu vörð á flugvellinum í morgun. AFP

„Talíbanar hafa unnið með sverðum sínum og skotvopnum

„Talíbanar hafa unnið með sverðum sínum og skotvopnum. Þeir eru nú ábyrgir fyrir heiðri, eignum og lífum landa sinna,“ sagði Ghani í yfirlýsingu á Facebook í gær.

Ashraf Ghani sagðist hafa flúið til þess að forða blóðbaði. …
Ashraf Ghani sagðist hafa flúið til þess að forða blóðbaði. Margir telja hann þó einungis vilja bjarga sjálfum sér og telja flótta hans bera vott um heigulshátt. AFP

Í myndskeiði sem birtist á samfélagsmiðlum kallaði einn af helstu leiðtogum talíbana, Abdul Ghani Baradar, eftir stillingu á meðal hermanna sinna.

„Nú verðum við að sanna að við getum þjónað þjóð okkar og tryggt öryggi og lífsgæði fólksins í landinu,“ sagði hann. Baradar er talinn líklegur til að verða næsti forseti landsins.

Abdul Ghani Baradar er talinn líklegasti næsti forseti Afganistans.
Abdul Ghani Baradar er talinn líklegasti næsti forseti Afganistans. AFP

Engar flugferðir í boði

„Það verða engar flugferðir frá Hamid Karzai flugvellinum. Er þessi ákvörðun tekin til þess að koma í veg fyrir óeirðir. Vinsamlegast ekki koma á flugvöllinn í flýti,“ sögðu flugvallaryfirvöld í Kabúl í tilkynningu.

„Það eru all­ir að reyna að kom­ast úr landi,“ sagði Brynja Huld Óskars­dótt­ir, ör­ygg­is- og varn­ar­mála­fræðing­ur og fyrr­um sam­skiptaráðgjafi Nato í Af­gan­ist­an, í samtali við mbl.is í gær.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert