Öllum almennum flugferðum frá Kabúl, höfuðborg Afganistans, var aflýst í morgun eftir að þar hafði skapast mikil ringulreið. Þúsundir leituðu sér að leið út úr landinu í gær og í nótt eftir að völd Talíbana jukust.
AFP greinir frá.
Talíbanarnir tóku yfir forsetahöllina eftir að forseti landsins, Ashraf Ghani, flúði landið í gær. Ótrúlega fljótt fall ríkisstjórnarinnar vakti ótta og örvinglun á meðal almennra borgara. Á einungis tíu dögum hafa Talíbanar náð að sölsa til sín svo til öll völd í Afganistan.
„Talíbanar hafa unnið með sverðum sínum og skotvopnum. Þeir eru nú ábyrgir fyrir heiðri, eignum og lífum landa sinna,“ sagði Ghani í yfirlýsingu á Facebook í gær.
Í myndskeiði sem birtist á samfélagsmiðlum kallaði einn af helstu leiðtogum talíbana, Abdul Ghani Baradar, eftir stillingu á meðal hermanna sinna.
„Nú verðum við að sanna að við getum þjónað þjóð okkar og tryggt öryggi og lífsgæði fólksins í landinu,“ sagði hann. Baradar er talinn líklegur til að verða næsti forseti landsins.
„Það verða engar flugferðir frá Hamid Karzai flugvellinum. Er þessi ákvörðun tekin til þess að koma í veg fyrir óeirðir. Vinsamlegast ekki koma á flugvöllinn í flýti,“ sögðu flugvallaryfirvöld í Kabúl í tilkynningu.
„Það eru allir að reyna að komast úr landi,“ sagði Brynja Huld Óskarsdóttir, öryggis- og varnarmálafræðingur og fyrrum samskiptaráðgjafi Nato í Afganistan, í samtali við mbl.is í gær.
Fréttin hefur verið uppfærð