Dagurinn eftir fall Kabúl í myndum

„Lífið í borginni virðist vera venjulegt. Það er mun minni umferð en vant er og flestar búðir eru lokaðar. En fólkið er mun rólegra en það var í gær, þá voru allir öskureiðir og umferðin var svakaleg,“ skrifar Malik Mudassir, blaðamaður BBC í Kabúl. 

Afganir klifruðu á topp flugvélar á meðan þeir biðu á …
Afganir klifruðu á topp flugvélar á meðan þeir biðu á flugvellinum í Kabúl. AFP

Í grein sem birtist á BBC í gærkvöldi sagðist Mudassir varla trúa því að svo mikil ró væri yfir borginni, daginn eftir valdframsal stjórnvalda til talíbana.

„Það eru talíbanar úti um allt,“ skrifar Mudassir sem segir að þeir stjórni umferðinni, leiti í bílum, sérstaklega þeim sem áður tilheyrðu lögreglu og stjórnarhernum.

Setið og beðið á flugvellinum í Kabúl.
Setið og beðið á flugvellinum í Kabúl. AFP

Klifruðu yfir veggi flugvallarins

Sama ró hvíldi sannarlega ekki yfir flugvellinum í Kabúl. Þar ríkti algjör ringulreið. Á veginum sem liggur til flugvallarins voru fjölskyldur, börn, ungt fólk og gamalmenni sem gengu meðfram veginum í átt til flugvallarins. 

„Fólk er að reyna að komast úr landinu en á erfitt með það,“ skrifar Mudassir.

Sumar flugvélar voru býsna þétt setnar.
Sumar flugvélar voru býsna þétt setnar. AFP

Fleiri en 10.000 voru á flugvellinum og talíbanar reyndu að varna fólki að fara inn með því að skjóta úr byssum sínum upp í loftið. Margir létu það ekki stoppa sig og klifruðu yfir veggina sem umkringja flugvöllinn. Hver einasta manneskja reyndi hvað hún gat til þess að komast inn. 

Fólk kom á flugvöllinn án þess að eiga flugmiða og jafnvel án þess að hafa vegabréf meðferðis. Margir bjuggust einfaldlega við því að þeim yrði hjálpað og flogið með þá úr landi, hvert sem væri.

Þúsundir, þeirra á meðal börn, voru fastar inni á flugvellinum án vatns og matar. 

Afganskar fjölskyldur sem bíða þess að komast úr landi.
Afganskar fjölskyldur sem bíða þess að komast úr landi. AFP

Hermennirnir vinalegir en fáar konur á ferli

Í borginni virðist þó allt ganga sinn vanagang. Mudassir segist ekki hafa talað við marga íbúa en leigubílstjórinn hans hafi ekki verið ósáttur við valdaskiptin. 

„Það kom mér á óvart að sjá fólk heilsa hermönnum talíbana. Sumir segja við þá „gangi ykkur vel“, „valdið til ykkar“ og annað í þeim dúr. Hermennirnir virðast líka vera hamingjusamir, ég hef talað við nokkra þeirra. Þeir voru vinalegir við okkur.“

Talíbani leitar í töskum fólks sem kemur frá flugvellinum í …
Talíbani leitar í töskum fólks sem kemur frá flugvellinum í Kabúl. AFP

Talíbanar eru þekktir fyrir það að skerða kvenréttindi verulega. Mudassir segist einungis hafa séð örfáar konur á götum úti síðan völdin yfir Kabúl féllu í hendur talíbönum. 

„Ég hef séð nokkrar konur án fylgdarmanna. Sumar voru í búrku en ég sá líka nokkrar sem voru með andlitsgrímu og höfuðklút. Talíbanarnir virtust ekki kippa sér upp við það.“

Talíbanar eru bíða á götum Afganistans.
Talíbanar eru bíða á götum Afganistans. AFP

Enamullah Samangani, talíbani sem situr í menningarnefnd þeirra, sagði í dag að íslamska ríkið vildi ekki að konur yrðu fórnarlömb. Samkvæmt sjaríalögum ættu þær að vera á meðal þeirra sem starfa fyrir ríkisstjórnina. Þegar talíbanar voru síðast við völd takmörkuðu þeir frelsi kvenna verulega, fáar konur fengu að vinna og flestum konum eldri en 12 ára var óheimilt að sækja sér menntun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert