Hitabeltisstormur nálgast eyju í sárum

Björgunarsveitir gera nú allt hvað þær geta til þess að finna eftirlifendur í byggingum sem hrundu til grunna í jarðskjálfta á Haítí um helgina. Stormur er á leiðinni sem gæti valdið enn meiri skaða. 

Að minnsta kosti 1.419 eru látnir vegna skjálftans sem var 7,2 að stærð. Um 6.900 manns meiddust og 37.000 heimili eyðilögðust. 

Útlit er fyrir flóð og aurskriður á suðvesturskaga Haítí, ríkis sem enn er í sárum eftir atburði helgarinnar. Skjálftinn sem skók eyjuna var 7,2 að stærð. 

Konur misstu fóstur vegna skjálftans

Sjúkrahús ráða ekki við þann fjölda sem til þeirra leitar og heilbrigðisstarfsmenn eru óvissir um að geta tekist á við álagið sem komandi hitabeltisstormur kann að valda. 

„Okkur líður ekkert sérstaklega vel andlega og höfum enga hugmynd um það hvernig við eigum að komast í gegnum þetta,“ sagði Aline Cadet, ljósmóðir á spítala í bænum Port-Salut sem fór illa út úr jarðskjálftanum.

„Það eru konur hér sem voru ófrískar en misstu fóstur vegna þess að þær duttu eða meiddust.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert