Ríki banni nauðaflutninga til Afganistans

Börn að leik í Kabúl fyrir viku. Þau höfðu flúið …
Börn að leik í Kabúl fyrir viku. Þau höfðu flúið átök talíbana annars staðar í landinu. AFP

Sameinuðu þjóðirnar kalla eftir því að ríki banni alla nauðaflutninga Afgana aftur til Afganistans, í kjölfar valdatöku talíbana í landinu.

Flóttamannastofnun SÞ kveðst í tilkynningu hafa gefið út tilmæli þessa efnis og beint þeim til aðildarríkja sinna.

Enginn afganskur ríkisborgari skuli neyddur til að snúa aftur til heimalands síns. Þar á meðal séu hælisleitendur sem þegar hefur verið neitað um landvistarleyfi.

Þegar stöðvað flutninga

Shabia Mantoo, talsmaður stofnunarinnar, hélt blaðamannafund í Genf í morgun þar sem hún fagnaði því að nokkur ríki Evrópu hefðu þegar stöðvað alla slíka flutninga fólks til Afganistans. Kvaðst hún vonast til að fleiri myndu fylgja hratt í kjölfarið.

Tugir þúsunda fólks hafa reynt að flýja landið í von um að sleppa úr greipum þeirrar ógnarstjórnar talíbana sem við er búist, að fenginni reynslu landsmanna. Margir þeir, sem unnu með bandarískum stjórnvöldum í ríkinu á undanförnum tveimur áratugum, óttast einnig hefndaraðgerðir af hálfu talíbana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka