Skila fyrstu niðurstöðum um þriðja skammtinn

Sprauta fyllt með efni Pfizer.
Sprauta fyllt með efni Pfizer. AFP

Lyfjatæknifyrirtækin Pfizer og BioNTech skiluðu í gær inn fyrstu upplýsingum til bandarískra heilbrigðisyfirvalda um tilraunir með þriðja skammt bóluefnis þeirra.

Stjórnvöld þar í landi heimiluðu í síðustu viku notkun örvunarskammta með efnum Pfizer og Moderna fyrir fólk með veikburða ónæmiskerfi.

Upplýsingarnar sem Pfizer og BioNTech skiluðu í gær innihalda niðurstöður fyrsta stigs tilrauna þar sem öryggi og virkni þriðja skammts af efninu voru metin.

Gæti dregið úr smit- og sjúkdómstíðni

Albert Bourla, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Pfizer, segir fyrstu niðurstöður benda til þess að þriðji skammtur bóluefnisins komi af stað mótefnum af slíku magni að það fari verulega fram úr því sem sést hafi eftir tvo skammta efnisins.

„Örvunarskammtur gæti hjálpað til við að draga úr smit- og sjúkdómstíðni í fólki sem þegar hefur verið bólusett, og stýrt betur útbreiðslu afbrigða veirunnar á komandi misseri,“ er haft eftir Ugur Sahin, meðstofnanda BioNTech, í sömu tilkynningu.

Fyrirtækin stefna að því að gefa evrópskum yfirvöldum sömu upplýsingar á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert