Útgöngubann í Nýja Sjálandi vegna smits

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, telur skynsamlegast að taka málið …
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, telur skynsamlegast að taka málið föstum tökum áður en smit fara að breiða úr sér víðar. AFP

Nýja-Sjáland hefur lýst yfir skyndilegu útgöngubanni í kjölfar þess að fyrsta kórónuveirusmitið greindist þar innanlands í sex mánuði.

BBC greindi frá þessu.

Smitið greindist í Auckland og hafði sýkti einstaklingurinn einnig heimsótt sjávarþorpið Coromandel, munu íbúar á þeim svæðum þurfa að sæta viku útgöngubanni á meðan afgangurinn af þjóðinni þarf einungis að vera í þrjá daga. 

„Ég vil fullvissa Nýja-Sjáland um að við höfum skipulagt okkur fyrir þennan möguleika. Að taka harkalega á stöðunni snemma hefur virkað fyrir okkur áður,“ segir Jacinda Ardern forsætisráðherra.

Vita ekki hvaðan smitið kom

Nýsjálensk yfirvöld telja að smitið megi rekja til deltaafbrigðisins, sem vekur áhyggjur, sérstaklega í ljósi þess að einungis 20% þjóðarinnar eru fullbólusett. Samkvæmt upplýsingum heilbrigðisráðuneytisins hafa öll smitin sem greinst hafa við landamæri Nýja-Sjálands undanfarnar vikur verið af deltaafbrigðinu.

Ekki er þó vitað hvernig einstaklingurinn smitaðist en hann á ekki að hafa verið í tengslum við landamæri eða sóttkvíaraðstöðu. Talið er að sjúklingurinn hafi verið smitandi frá því á fimmtudaginn síðasta og eru nú 23 möguleg svæði sem hann gæti hafa smitað aðra.

Munu skólar, skrifstofur og fyrirtæki standa lokuð næstu daga og verður eingöngu nauðsynlegri þjónustu haldið úti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert