Talíbanar í Afganistan lýstu því yfir á blaðamannafundi í Kabúl í gær að sjaríalög, lagakerfi sem byggt er á hugmyndum Íslamska ríkisins, verði innleidd þegar þeir taka við stjórnartaumunum.
Í kjölfar yfirtöku talíbana á höfuðborginni Kabúl hafa þúsundir Afgana lagt á flótta út í óvissuna.
Margir velta því eflaust fyrir sér hvað muni nú taka við í Afganistan, en þetta hafði Zabihulla Mujahid, talsmaður talíbana, að segja á blaðamannafundinum í gær:
„Kóraninn segir að konur séu mikilvægar í okkar samfélagi; þær mega vinna, þær mega mennta sig og þær eru ómissandi fyrir samfélagið.“
Hann hefur þá sagt að konur muni njóta réttinda – þó innan ramma sjaría-laganna.
En hvað þýðir það? Svarið er ekki einfalt að mati Kristjáns Þórs Sigurðssonar, aðjunkts í mannfræði við Háskóla Íslands, en hann fylgdist grannt með blaðamannafundi talíbana í gær.
„Það veit í rauninni enginn ennþá hvað þeir eru að meina, en það er mjög líklegt að það þýði að þeir ákveði hvað konur megi gera og hvað þær mega ekki,“ segir Kristján, en sú stefna eigi sér enga stoð í Íslamstrú. Í hinum múslímska heimi hafi fjöldinn allur af konum verið í valdastöðum:
„Forsætisráðherra Bangladess er til dæmis kona og forsætisráðherra Pakistan var einu sinni kona. Það er löng hefð fyrir því að múslímskar konur hafi áhrifastöður í samfélaginu.“
Talíbanar eru fyrst og fremst öfgaþjóðernissinnuð andspyrnuhreyfing, sem vill reka vestræna heri burt og hafna vestrænum gildum. Kristján vill meina að talíbanarnir séu í raun pólitíkusar, þar sem þeir sækjast eftir því að komast til valda, og nota hugmyndir Íslamstrúar til þess að stjórna fólki. Slíkt eigi litla stoð í Íslamstrú.
„Í Kóraninum sjálfum er endalaust verið að hvetja fólk til þess að læra, og til dæmis á tímum spámannsins voru konur virkar í samfélaginu, þær voru virkar í bænahaldi, hernaði og fyrsti músliminn í heiminum var fyrsta eiginkona Múhameðs, sem var stórkaupmaður í raun og veru; stjórnaði úlfaldalestum og hann var að vinna fyrir hana.“
Eftir ákveðinn tíma hafi feðraveldið tekið völdin. „Þá er farið að lauma gömlum ættbálkahugmyndum inn í lagakerfið. En í dag eru múslímskar fræðikonur að endurskoða þessar hugmyndir. Þær vilja meina að þetta sé ekki samkvæmt Íslam, enda hafi karlarnir túlkað lögin.“
Kristján segir að hugmyndir talíbana byggi á einhverju allt öðru en Kóraninum. En þegar talíbanar voru við völd í Afganistan 1996 til 2001 innleiddu þeir til að mynda harðar refsingar á borð við opinberar aftökur við morði og framhjáhaldi.
Fólk virðist óttast þessar refsingar. Er útlit fyrir að þetta verði innleitt aftur?
„Sérstaklega þeir sem eru í nöp við múslima og annað slíkt einblína á refsingarnar. En ef þú myndir fara í Gamla testamentið þar myndirðu sjá einhverjar hugmyndir sem engum myndi detta í hug að nota í dag. Þetta byggir á einhverjum samfélagslegum hefðum fyrir löngu löngu síðan, síðan þá hafa þessi samfélög breyst mikið - til dæmis í flestum löndum múslíma er sjaría notað í fjölskyldurétti.“
Hann bætir við að sjaríalögin eigi ekki við refsirétt.
Hann segir að hugmyndir talíbana séu margtum svipaðar þeim sem stjórnvöld í Sádí-Arabíu aðhyllast: „Þeir nota einhverjar trúarlegar hugmyndir sem stjórntæki. Flestir múslimar fyrirlíta þessa gaura og segja að þetta er ekki Íslam, „þetta eru ekki þessar hugmyndir sem við styðjumst við“. Talíbanar séu ekki vinsælir í Afganistan, út af þessu.
„Ég er ekki viss um að meðlimir talíbana séu mjög uppteknir af trúmálum. Þetta er eitthvað sem þeir nota bara til þess að réttmæta það sem þeir eru að gera,“ en talíbanar séu ekki þeir einu sem eru sekir um slíkt, enda hafi kristnir menn réttlætt ódæði með trúarstefnu í þúsundir ára.
Að endingu segir Kristján: „Það skiptir svo miklu máli þegar talað er um svona hluti, að þeir merki það sem þeir eiga að merkja. Maður er strax farinn að sjá klisjurnar koma aftur, um sjaría, íslamista og kúgun á konum. Þetta ýtir undir neikvæðar staðalmyndir og fordóma um alla múslima. En flestum Afgönum er illa við talíbana, þeir „representera“ [eru fulltrúar] ekki neina nema sjálfa sig.“