„Ég hafði engan tíma til að hugsa. [...] Ég tók fartölvuna og símann og ekkert annað. Ég fann til ótta um leið og ég gekk út af heimili mínu. Ég hef aldrei fundið fyrir jafn miklum þrýstingi á ævinni,“ skrifar afganski blaðamaðurinn Ramim Rahman. Hann flúði frá Afganistan sama dag og talíbanar tóku völdin í höfuðborg landsins, Kabúl.
Guardian birti nú í morgun grein um flótta Rahman.
Á sunnudaginn, daginn sem talíbanar tóku yfir Kabúl, fékk Rahman símtal frá vini sínum í Þýskalandi. Hann sagði Rahman að drífa sig á flugvöllinn vegna þess að mögulega færi þýskt rýmingarflug þaðan sama dag.
„Hann setti nafnið mitt á farþegalistann vegna þess að ég hafði unnið fyrir þýska fjölmiðla og ég var að vinna í að sækja um landvistarleyfi í Þýskalandi síðastliðið ár,“ skrifar Rahman. „Þetta var einhvers konar líflína fyrir mig, framsækinn, berorðan, tattúveraðan blaðamann. Ég er í raun akkúrat andstæða þess sem talíbanar standa fyrir.“
Þegar Rahman kom á flugvöllinn var mikil ringulreið þar. Lögreglan var farin og flestir hermennirnir líka. Hann var ekki með vegabréfsáritun til þess að komast úr landi svo hann var hræddur um að verða sendur burt.
„Þegar ég kom að alþjóðlega svæðinu var ég í áfalli og fann til vonleysis. Þar voru þúsundir, karlar og konur með grátandi börn sem vissu ekki hvernig þau ættu að snúa sér. Fólk óttaðist að talíbanarnir væru á leiðinni. Fólkið sem þarna var, bæði Afganir og erlendir ríkisborgarar fóru á flugvöllinn án þess að vita hvað myndi gerast.“
Rahman segir að ástandið hafi farið síversnandi. Hann ákvað sjálfur að fela sig í einu horninu. Þegar hann horfði út um gluggann var mikill fjöldi fólks að reyna að komast inn í flugvél á leið til Tyrklands. Sumir héngu jafnvel í stigum flugvélarinnar. Flugvélin var yfirfull og var fólki ýtt úr stigum hennar svo vélin gæti tekið á loft.
„Fólk öskraði svo hátt að við gátum heyrt í þeim innan úr flugstöðinni. Ég horfði bara á, skelfingu lostinn.“
Um klukkan níu um kvöldið öskraði einhver að talíbanarnir væru mættir á flugvöllinn. Skelfing greip um sig og Rahman hringdi í þýska vin sinn sem sagði að Þjóðverjar myndu ekki hefja rýmingu fyrr en næsta dag. „Það voru hræðilegar fréttir.“
Bandarískir hermenn reyndu að stappa stálinu í fólkið á vellinum og sögðu að talíbanarnir myndu ekki koma á flugvöllinn.
„Á næstu augnablikum leið mér eins og tíminn stæði í stað. Það eina sem ég heyrði var þegar Bandaríkjamennirnir sögðu „Af stað!“ Ég sá fólk streyma inn í flugvél og ég elti. Það var það eina sem ég gat gert. Hundruð voru í vélinni og það var ekkert pláss til þess að sitja. Allir stóðu,“ skrifar Rahman.
„Bandarísku flugmennirnir öskruðu að vélin gæti ekki farið af stað því að það var of margt fólk í vélinni. Svo komu hermenn og toguðu fólk út úr vélinni. Ég var í miðjunni.“
Rahman segir að ringulreið hafi ríkt. Hann ákvað að fara frá borði þegar hann horfði í kringum sig og sá konur með nýfædd börn og fann til sektarkenndar. Þegar hann var á leið út báðu hermennirnir hann um að stöðva þar sem hótanir hefðu borist. Um klukkustund síðar hóf vélin sig á loft.
„Fólk var ofboðslega hamingjusamt. Allir klöppuðu og fögnuðu og fólk var þakklátt flugmanninum. Fólki leið eins og það hefði dáið ef það hefði ekki komist um borð í þessa flugvél. Við vorum það hamingjusöm.“
Rahman segir að samt sem áður hafi flugið verið mjög erfitt. Mörg börn voru um borð. Ekkert var um vatn, mat og súrefnið var jafnvel af skornum skammti.
Vélin lenti í Katar og fólkið var flutt í herstöð Bandaríkjamannanna á vellinum.
„Ég er sorgmæddur yfir því að ég skildi allt eftir. Ég er sorgmæddur vegna Afganistan. En ég er svo ánægður að vera á lífi,“ skrifar Rahman að lokum.