Líkamshlutar fundust í flugvél frá Kabúl

Fólk hefur reynt allt sem í þeirra valdi stendur til …
Fólk hefur reynt allt sem í þeirra valdi stendur til þess að komast úr landi. AFP

Líkamshlutar manneskju fundust í stýrishólfi bandarískrar herflugvélar af gerðinni C-17 sem flaug frá Hamid Karzai-alþjóðaflugvellinum í Kabúl, höfuðborg Afganistans, á mánudag. Flugher Bandaríkjanna staðfesti þetta við New York Times í gær. 

Málið er í rannsókn.

Nokkrir létust á flugvellinum í Kabúl fyrr í vikunni þegar mesta ringulreiðin var þar en ekki hefur verið staðfest hversu margir týndu lífi. Fjöldi Afgana klifraði á topp umræddrar vélar og nokkrir þeirra létust þegar þeir féllu í jörðina eftir að vélin tók á loft. Ekki er vitað hversu margir létust.

Þúsundir Afgana hafa reynt, með misjöfnum árangri, að komast úr landi á síðustu dögum, síðan talíbanar tóku völdin í Kabúl á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert