Talíbanar koma úr felum

Nokkrir helstu leiðtogar talíbana hafa snúið aftur til Afganistans úr útlegð í Katar, eftir að talíbanar steyptu stjórnvöldum í Afganistan af stóli. Þeirra á meðal er múlla Baradar, einn af stofnendum talíbana. Hann er nú í afgönsku borginni Kandahar og fer væntanlega til Kabúl, höfuðborgar Afganistans, í dag eða á morgun. 

Baradar hafði verið sleppt úr fangelsi árið 2018, að frumkvæði Bandaríkjanna, til þess að hann gæti tekið þátt í friðarviðræðum.

Fréttir af talíbönum eru misvísandi um þessar mundir. Hvíta húsið gaf það til að mynda út í morgun að almennir borgarar gætu farið á flugvöllinn í Kabúl, án þess að þurfa að óttast um öryggi sitt. Fréttir frá Afganistan benda þó til þess að Afganar sem voru á leið á flugvöllinn hafi verið barðir af talíbönum.

Zabihullah Mujahid (til vinstri) mætti á blaðamannafund talíbana í gær.
Zabihullah Mujahid (til vinstri) mætti á blaðamannafund talíbana í gær. AFP

Ætla sér að sýna heiminum andlit sín

Fleiri en 2.200 Afganar og erlendir ríkisborgarar hafa flogið með rýmingarflugferðum frá Afganistan síðan á sunnudag, daginn sem talíbanar tóku völdin. 

Leiðtogar talíbana hafa margir hverjir eytt síðustu 20 árum í felum en nú er staðan önnur. Þeir ætla sér að sýna heiminum andlit sín. Zabihullah Mujahid, talsmaður talíbana, mætti til að mynda á fyrsta blaðamannafund þeirra frá því að þeir tóku völdin. 

Almennir borgarar í Afganistan hafa verið beðnir að láta af hendi öll skotvopn og sprengibúnað.

Fréttastreymi BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert