Flutningaskipið Ever Given, sem sigldi í strand í Súez-skurðinum og stöðvaði þar alla umferð í heila viku í mars s.l. sigldi aftur í gegnum skurðinn í dag en í þetta skiptið áfallalaust, að því er greint frá í frétt BBC.
Var það í samfloti með öðrum skipum sem sigldu frá Miðjarðarhafi til Rauðahafsins, að því er stjórn Súez-skurðsins greindi frá á Twitter í dag.
بالفيديو…عبور سفينة الحاويات البنمية العملاقة #EVERGIVEN بنجاح ضمن قافلة الشمال خلال رحلة العودة بعد تفريغ حمولتها قادمة من المملكة المتحدة ومتجهة إلى الصين #SUEZCANAL pic.twitter.com/MaEeVU6FFQ
— هيئة قناة السويس Suez Canal Authority (@SuezAuthorityEG) August 20, 2021
Ever Given, sem er eitt af stærstu flutningaskipum heims flutti 18.300 gáma til Rotterdam, Felixstowe og Hamborgar og er nú á leið sinni til Kína.
Rúmlega fjórir mánuði eru síðan skipið strandaði í Súez-skurðinum vegna vinda og stöðvaði þar með umferð fjölda skipa með tilheyrandi raski á vöruflutningi milli landa.
Mikla vinnu kostaði að losa skipið en þegar það loksins tókst fór stjórn Súez-skurðsins fram á að eigandi Ever Given, japaninn Shoei Kisen, greiddi þeim 916,5 milljónir bandaríkjadala í skaðabætur fyrir tjónið sem ströndun skipsins olli, jafnvirði um 117 milljarða króna.
Shoei endaði þó á því að þurfa einungis að reiða af hendi 550 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 70 milljarða króna til stjórnar Egyptalands fyrir skaðann.