Ganga húsa á milli í leit að andstæðingum

Hermenn talíbana ganga á milli húsa og leita að pólitískum …
Hermenn talíbana ganga á milli húsa og leita að pólitískum andstæðingum og fjölskyldumeðlimum þeirra. AFP

Talíbanar ganga nú húsa á milli í leit að andstæðingum og fjölskyldumeðlimum þeirra, að því er kemur fram í skjölum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa undir höndunum. Ýtir þetta undir þá hræðslu að hinir nýju leiðtogar Afganistan gangi bak loforða sinna um svokallaða sakaruppgjöf gagnvart opinberum starfsmönnum annarra ríkja og alþjóðasamtaka.

Ýmis fyrirheit hafa verið gefin af talíbönum sem á sunnudaginn náðu völdum yfir höfuðborginni Kabúl í Afganistan. Sporin hræða þó og orðstír talibana gerir það að verkum að fáir hafa trú á innihaldi þessara yfirlýsinga.

Meðal þeirra loforða sem þeir hafa lýst yfir er að virða réttindi kvenna, ólíkt stefnu þeirra í fyrri valdatíð sinni, og að sýna algert umburðarlyndi gagnvart þeim sem starfað hafa fyrir aðrar þjóðir eða alþjóðsamtök og eru búsettir í Afganistan.

Fólk er tortryggið gagnvart þessum yfirlýsingum og þúsundir manna hafa reynt að flýja land undanfarna daga. Þessar nýju upplýsingar úr skjölum Sameinuðu þjóðanna eru til þess fallnar að staðfesta grun fólksins um að loforðin séu innantóm.

Talsmaður talíbana, Zabihullah Mujahid, lofar að réttindi kvenna verði virt …
Talsmaður talíbana, Zabihullah Mujahid, lofar að réttindi kvenna verði virt en einnig hafði hann lofað umburðarlyndi og sakaruppgjöf þeirra sem nú er leitað. AFP

Pyndingar og dauðarefsing

Húsleit talíbana beinist sérstaklega að þeim sem starfað hafa í tengslum við her Bandaríkjanna eða NATO. Þetta kemur fram í skjölunum. Einnig segir þar að hermenn talíbana séu að fylgjast sérstaklega vel með þeim sem leggja leið sína á flugvöllinn í Kabúl.

„Spjótin beinast að fjölskyldum þeirra sem neita að gefa sig fram. Eru þær svo sóttar til saka og þeim refsað að sharískum lögum,“ var haft eftir Christian Nellemann, framkvæmdastjóra áhættumatsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Þar með er búist við að fyrrum starfsmenn NATO og Bandaríska hersins geti átt yfir höfði sér pyndingar og dauðarefsingu.

Talsmaður talíbana, Zabihullah Mujahid sagði á twitter að hermenn talíbana hefðu ekki leyfi til að ráðast inn á heimili fólks. Þeir sem væru að því gerðu það líklega af fávisku.

Framtíð afganskra kvenna í hættu

Hann hefur einnig gefið út fyrirheit um að réttindi kvenna verði virt. Réttindi þeirra yrðu þó að taka mið af islömskum sið og reglum.  Þegar talíbanar voru síðast við völd, á árunum 1996 til 2001 voru konur kúgaðar og réttindi þeirra ekki virt heldur virt að vettugi.

Stúlkum var meinað að ganga í skóla og opinber þátttaka kvenna í samfélaginu var bönnuð í stórum stíl. Þeim var meinað að fara út úr húsi nema huldar búrku frá toppi til  táar og í fylgd með fullorðnum karlmanni.

Konur sem sakaðar voru um að vanvirða þessar reglur þurftu að þola þungar refsingar.

Til að mynda var refsingin við framhjáhaldi kvenna, að vera grýtt til dauða.

Á svæðum sem hafa síðan þá verið á valdi talíbana, hafa konur enn lifað við þessar aðstæður. Talíbanar hafa í tuttugu ár ofsótt aðgerðarsinna, blaðamenn, kennara og ráðamenn sem hafa beitt sér fyrir réttindum kvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka