Vilja kjósa um sjálfstæði Skotlands á ný

Nicola Sturgeon, formaður Skoska þjóðernisflokksins, segist staðráðin í að koma …
Nicola Sturgeon, formaður Skoska þjóðernisflokksins, segist staðráðin í að koma þjóðaratkvæðagreiðslunni í gegn. AFP

Stjórnarmeirihluti Skotlands á skoska þinginu tilkynnti í dag áform um sögulegt samkomulag milli flokkanna tveggja sem aðhyllast sjálfstæðisstefnu í framtíðarsýn Skotlands. Þeir vilja að Skotland verði sjálfstætt ríki og ekki lengur hluti af Bretlandi. 

Um er að ræða samkomulag milli Skoska þjóðernisflokksins (e. Scottish National Party) og Grænu hreyfingu Skotlands (e. Scottish Green Party). Það á þó enn eftir að kjósa um þetta endanlega innan flokkanna sjálfra og því ekki orðið öruggt.

Ef samkomulagið næst eru líkur á að flokkarnir nái fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið á breska þinginu þar sem þeir verða þá með samanlagt 72 þingmenn af 129. 

Lofa Skotum þjóðaratkvæðagreiðslu

Í þessu samkomulagi er að finna loforð um að þjóðin fái á ný að greiða atkvæði um það hvort Skotland eigi að slíta sig frá Bretlandi eða ekki, fyrir fyrri þinglok 2024, að því gefnu að heimsfaraldurinn verði ekki lengur viðloðandi.

Nicola Sturgeon, formaður Skoska þjóðernisflokksins, segist staðráðin í að koma þjóðaratkvæðagreiðslunni í gegn þrátt fyrir mikla andstöðu á breska þinginu í London.

Þrátt fyrir samvinnuna sem mun felast í sáttmálanum milli flokkanna tveggja, er ekki um samruna að ræða. Munu þeir því áfram hafa sjálfstæða rödd í öðrum málefnum.

Fellt með 55% atkvæða 2014

Árið 2014 var síðast haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta sama mál, hvort Skotland ætti að segja skilið við hin lönd Bretlands: England, Wales og Norður-Írland.

Fór hún svo að 55 prósent greiddu atkvæði gegn útgöngunni en mjótt var á munum og var málið því tæpast afgreitt út úr hinni stjórnmálalegu umræðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka