Biðja fólk að halda sig frá flugvellinum

Þúsundir manna hafa safnast saman á flugvellinum í Kabúl.
Þúsundir manna hafa safnast saman á flugvellinum í Kabúl. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa beðið bandaríska borgara að halda sig frá Kabúl-flugvelli í ljósi örtraðar á vellinum, þar sem fjöldi fólks leggur nú á flótta frá Afganistan eftir yfirtöku talíbana á höfuðborginni Kabúl.

Voru þessi tilmæli gefin út í ljósi „mögulegrar hættu utan flughliðanna“ en þar er væntanlega verið að vísa til flugbrautanna, hvar margir hafa hangið og jafnvel gengið svo langt að standa ofan á flugvélum og jafnvel fallið af þeim þegar þær hefja sig á loft.

Frá yfirtöku talíbana hafa þúsundir Afgana haldið á flugvöllinn. Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra, svo sem starfsmenn mannréttindasamtaka, eru á meðal þeirra en óttast er að þeir muni lenda í hefndaraðgerðum nái talíbanar til þeirra.

Það er óljóst hver staðan er á flugvellinum akkúrat núna að því er BBC greinir frá en Stuart Ramsay, fréttaritari Sky News, segir að fólk sé að kremjast til dauða í troðningi þar sem þúsundir manna hafa safnast saman. Hann segir að dagurinn í dag á flugvellinum sé sá versti til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert