Ringulreið á flugvellinum í Kabúl

Enn er gríðarleg ringulreið á flugvellinum í Kabúl, höfuðborg Afganistans, enda þúsundir að leita leiða til að komast frá landinu í kjölfar valdaráns talíbana. Upptökur sýna að táragasi var beitt gegn fólkinu fyrr utan flugvöllinn, en hann er undir stjórn bandaríska hersins.

Þá hefur herinn sent þyrlur til að sækja 150 Bandaríkjamenn sem ekki komust á flugvöllinn og eru það talin fyrstu ummerki þess að herinn er reiðubúinn til að beita sér utan múra flugvallarins í Kabúl.

Gríðarlegur fjöldi fólks leitar leiða til að komast frá Afganistan. …
Gríðarlegur fjöldi fólks leitar leiða til að komast frá Afganistan. Í gær náðist mynd af bandarískum landgönguliða að lyfta ungabarni yfir girðinguna á alþjóðaflugvellinum í Kabúl. AFP

Aðgerðir Bandaríkjanna til að koma fólki í skjól töfðust í gær í sjö klukkutíma sökum þess að flugvöllurinn á hinum endanum í Katar var orðinn yfirfullur og gat ekki tekið við fleiri einstaklingum sem nú eru að yfirgefa Afganistan. Lýsa þeir sem komist hafa til Katar því að þeir hafi þurft að dvelja í tvo til þrjá daga í miklum hita í flugskýlum og sofa á gólfinu.

Staðan í Katar í gær gerði það að verkum að fjöldi Afgana sem hafa fengiðheimild til að fljúga frá Afganistan til Bandaríkjanna voru fastir á flugvellinum í Kabúl.

6.000 fluttir úr landi á 24 tímum

Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir óhóflega skriffinsku við framkvæmd fólksflutningana frá Afganistan og fyrir að hafa ekki tryggt nægilegan fjölda starfsmanna til að annast það mikla verkefni að sinna málum fleiri þúsund Afgana sem nú leita leiða til að komast til Bandaríkjanna.

Bandaríski flugherinn hefur flogið með mikinn fjölda fólks úr landi.
Bandaríski flugherinn hefur flogið með mikinn fjölda fólks úr landi. AFP

Hank Taylor, hershöfðingi í herliði Bandaríkjanna í Afganistan, segir bandarískar flugvélar hafa flutt um sex þúsund einstaklinga frá Afganistan á 24 tímum þar til flöskuhálsinn í Katar stoppaði aðgerðir í gær.

Atlantshafsbandalagið hefur heitið því að koma öllum sem starfað hafa fyrir bandalagið úr landi en framkvæmdin er enn óljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert