Andersson talin líklegur eftirmaður Löfvens

Stefan Löfven fyrir miðju og Magdalena Andersson til hægri.
Stefan Löfven fyrir miðju og Magdalena Andersson til hægri. AFP

Eftir tíu ár sem leiðtogi sænskra sósíaldemókrata mun Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, hætta sem bæði formaður flokks síns og ráðherra í haust. 

„Það er ekki auðvelt, en þetta er það rétta í stöðunni. Það sem mestu máli skiptir er það sem er best fyrir flokkinn, fyrir landið. Það sem ég skil eftir fyrir eftirmann minn. Þetta er það sem leiðir mig og þetta er ástæðan fyrir því að ég er hérna,“ sagði Löfven m.a. í sumarávarpi sínu í dag þar sem hann tilkynnti ákvörðun sína. 

Ákvörðun Löfvens fylgir í kjölfarið á vantrauststillögu sem samþykkt var gegn ríkisstjórn hans fyrr í sumar. Aldrei áður hefur vantrauststillaga á sitjandi forsætisráðherra verið samþykkt í Svíþjóð. 

Ekki liggur fyrir hver eigi eftir að taka við formennsku sósíaldemókrata þegar Löfven hættir í haust. Sænska fréttaveitan TT telur þó líklegt að fjármálaráðherra landsins, Magdalena Andersson, sé líklegt val. Nýr formaður verður á endanum kosinn á landsfundi sósíaldemókrata í byrjun nóvember. Sænska þingið þarf síðan að samþykkja að nýr formaður flokksins setjist í stól forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert