Leiðtogar G7-ríkjanna munu ræða ástandið í Afganistan á þriðjudaginn, í gegnum fjarfundabúnað.
Í dag er vika síðan talíbanar náðu völdum yfir höfuðborginni Kabúl.
Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, segir mikilvægt að alþjóðasamfélagið vinni saman að því að koma fólki með öruggum hætti úr landi og spyrna við krísuástandi í mannúðarmálum.
G7-ríkin eru Bretland, Kanada, Frakkland, Ítalía, Japan og Bandaríkin. Bretland er nú í forystusæti samtakanna og Johnson hefur ítrekað reynt að boða til fundar síðastliðna viku.
Á fimmtudag sendu G7-ríkin frá sér fyrstu yfirlýsinguna í tengslum við yfirtöku talíbana. Hvöttu þau talíbana til þess að tryggja öryggi þeirra sem nú flýja höfuðborgina.
Bandaríkin hafa sent þúsundir hermanna tímabundið til Afganistans aftur til þess að vernda flugvöllinn og aðstoða við að koma Bandaríkjamönnum sem staddir eru í Afganistan, og þeim Afgönum sem unnu fyrir Bandaríkin, úr landi.
Áætlað var að þeir hermenn yrðu kallaðir til baka 31. ágúst en önnur G7-ríki hafa gefið í skyn að víkka þurfi út þann tímaramma. Líklega fæst niðurstaða um það á fundinum sem fram undan er.