Keppendur hvattir til að snæða í einrúmi

131 smit er þegar komið upp í hópi keppenda og …
131 smit er þegar komið upp í hópi keppenda og leikarnir eru ekki byrjaðir. AFP

Aukið verður við sýnatöku og ferðafrelsi einstaklinga verður skert umfram það sem áætlað var, með nýjum sóttvarnaaðgerðum sem skipuleggjendur Ólympíuleika fatlaðra (e. Paralympics) kynntu í dag.

Leikarnir eru haldnir í Tókýó en Japanir standa nú frammi fyrir metfjölda smita, nokkrum dögum fyrir opnunarathöfnina.

131 meðal keppenda og leikarnir ekki byrjaðir

Ólympíuleikunum lauk áttunda ágúst. Skipuleggjendum þóttu þeir bera þess merki að sóttvarnaráðstafanir þeirra virkuðu. Voru tilkynnt 547 smit á þeim leikum, frá fyrsta júlí.

Nú þegar hefur verið tilkynnt um 131 smit í hópi keppenda á Ólympíuleikum fatlaðra.

Reglurnar sem voru í gildi á Ólympíuleikunum gerðu kröfu um grímunotkun og daglegar sýnatökur hjá keppendum.

Ferðafrelsi þeirra var eitthvað takmarkað en að fjórtán dögum liðnum höfðu keppendur leyfi til að ferðast um og nýta sér almenningssamgöngur.

Með nýjum reglum sem munu gilda á Ólympíuleikum fatlaðra verður starfsfólk einnig skimað daglega og keppendur hafa ekki lengur leyfi til að fara af svæðinu og nota til þess almenningssamgöngur.

Eru keppendur jafnframt hvattir til að snæða máltíðir sínar í einrúmi og halda sig sem mest á dvalarstað sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert