Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, tilkynnti í dag að hann muni ekki sækjast eftir að leiða sósíaldemókrata áfram á flokksþingi í nóvember og muni í kjölfarið láta af störfum sem forsætisráðherra.
Svt nyheter greinir frá.
Löfven ávarpaði sænsku þjóðina í dag í svokölluðu sumarávarpi. Þar sagði hann að sósíaldemókratar yrðu leiddir af einhverjum öðrum í þingkosningum næsta árs.
Sagðist hann hafa upplýst stjórn flokksins og formann kjörnefndar hans um að hann vildi láta af formennsku flokksins á flokksþingi í nóvember. Löfven sagði að hann hefði áður verið ákveðinn í að starfa annað kjörtímabil en þessi ákvörðun hefði þroskast hjá sér í nokkurn tíma.
Löfven hefur verið formaður sósíaldemókrata í nærri tíu ár og forsætisráðherra í sjö ár.