Andstæðingar talíbana sækja í sig veðrið

Andstæðingar talíbana í Panjshir-dalnum eru tilbúnir í átök ef til …
Andstæðingar talíbana í Panjshir-dalnum eru tilbúnir í átök ef til þess kemur. AFP

Andstæðingar talíbana í Afganistan vilja byrja á því að reyna að semja friðsamlega við þá en eru tilbúnir að vígvæðast ef það gengur ekki eftir. Að þeirra sögn hafa þúsundir bæst við sveitir þeirra.

Bækistöðvar andstæðinga talíbana, sem kalla sig NRF (e. National Resistance Front), eru í Panjshir-dalnum norðaustanmegin við höfuðborgina Kabúl. Talíbanar færa sig nú sífellt nær þessum dal en Amrullah Saleh, sem var varaforsætisráðherra Afganistan áður en talíbanar tóku völdin, segir sveitir þeirra nú reyna að loka aðkomuleiðinni inn í dalinn.

Íbúar í Panjshir-dalnum hafa náð að bægja frá þeim byltingum og stríðum sem háð hafa verið í landinu síðustu áratugina. Allt frá hersveitum Sovétríkjanna í stríðinu 1979 til 1989 og síðast talíbananna á tíunda áratug síðustu aldar.  

Þurfi að hlúa að sárum Afgana

Haft er eftir talsmanni NRF á vef BBC að hersveitin hafi séð mikinn vöxt í minni sveitum andstæðinga talíbana víðs vegar um landið. Hann sagði hópinn búa yfir þúsundum sveita sem tilbúnar væru að streitast gegn ógnarstjórn talíbana en ítrekar að friðsamlega lausnin væri í forgangi.

Liðsmenn NRF vilja dreifstýrð stjórnvöld í landinu. Til þess að viðhalda friði til lengri tíma þurfi að hlúa að sárum Afganistan sem sé samansett úr stórum fjölda þjóðernisminnihlutahópa. Enginn einn hópur geti ráðið yfir öllum hinum og því sé nauðsynlegt að dreifa valdinu. Öllum eigi að líða eins og þeir hafi einhver völd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert