Chris Hipkins, ráðherra Covid-viðbragðsmála í Nýja-Sjálandi, segir delta-afbrigði kórónuveirunnar vekja spurningar um stefnu landsins í sóttvarnarmálum.
Nýja-Sjáland hefur hingað til reynt að útrýma veirunni úr samfélaginu með því að setja á útgöngubann þegar innanlandssmit greinast samhliða hörðum aðgerðum á landamærunum.
Hipkins segir stuttan tímaramma milli þess að einstaklingur smitist og þangað til hann byrji að smita kunna að valda landinu sérlega miklum vandræðum. „Það er ólíkt öllu því sem við höfum verið að tækla hingað til og breytir öllu,“ sagði Hipkins í viðtalsþætti á dögunum.
Hann segir þetta rýra traust á þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hafi beitt hingað til og því séu þau að horfa til annarra lausna. „Á einhverjum tímapunkti þurfum við að verða opnari,“ hefur The Guardian eftir Hipkins.
Útgöngubann er nú í gildi í Nýja-Sjálandi eftir 72 innanlandssmit síðustu daga en fyrir þá bylgju hafði ekki komið upp innanlandssmit í landinu í hálft ár. Aðrar þjóðir sem fylgja sömu stefnu og Nýja-Sjáland hafa átt í stökustu vandræðum með að útrýma delta-afbrigðinu úr samfélaginu og er nærtækasta dæmið þar Ástralía þar sem útgöngubann er í gildi út mánuðinn.
Forsætisráðherra Nýja-Sjálands Jacinda Ardern, greindi frá því fyrr í mánuðinum að ríkið myndi áfram beita „útrýmingarstefnunni“ en bólusetningar hafa gengið tiltölulega hægt í Nýja-Sjálandi. Einungis fimmtungur þjóðarinnar er fullbólusettur.