Vonar að brottflutningi ljúki í tæka tíð

Joe Biden Bandaríkjaforseti á blaðamannafundinum í gær.
Joe Biden Bandaríkjaforseti á blaðamannafundinum í gær. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti segist vona að búið verði að ljúka við brottflutning fólks frá Afganistan í lok þessa mánaðar eins og áætlanir gera ráð fyrir.

Hann varar við mögulegum hryðjuverkaárásum á flugvellinum í Kabúl, höfuðborg landsins, þar sem mikill fjöldi fólks er samankominn.

Til þess að hraða málum hafa bandarísk stjórnvöld beðið sex flugfélög, eða American Airlines, Atlas, Delta, Omni, Hawaiian og United, að útvega 18 farþegaflugvélar til að koma fólki frá landinu.

Þrátt fyrir að þeim sem vilja yfirgefa Afganistan hafi fjölgað svo og vandamálunum sem fylgja því sagðist Biden í gær stefna að því að ljúka verkefninu í síðasta lagi 31. ágúst. Þessa dagsetningu hafa talíbanar þegar samþykkt.

Biden sagðist á blaðamannafundi í Hvíta húsinu vona að þessi tímasetning breyttist ekki.

„Við sjáum hvað við getum gert,” sagði hann.

Tvö börn benda á flugvél á alþjóðaflugvellinum í Kabúl.
Tvö börn benda á flugvél á alþjóðaflugvellinum í Kabúl. AFP

Biden sagði erfitt að fylgjast með þeim fjölda Afgana sem hefðu safnast saman á flugvellinum í von um að flýja undan talíbönum en bætti við að búast mátti við þessu.

„Það er engin leið að flytja svona marga á brott án sársauka, missis og þessara sorglegu mynda sem maður sér,“ sagði forsetinn.

Hann varaði við því að öfgamenn úr röðum Ríkis íslams, þekktir sem ISIS-K, væru stöðug ógn. „Við vitum að hryðjuverkamenn gætu reynt að notfæra sér ástandið,“ sagði hann. „Þessi aðgerð er ennþá hættuleg.“

Flytja þarf allt að 15 þúsund Bandaríkjamenn frá Afganistan, að sögn Bidens. Hann bætti við að bandaríska ríkisstjórnin vildi koma að minnsta kosti 50 þúsund afgönskum samherjum sínum og fjölskyldum þeirra út úr landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert