Þrýstingur á Bandaríkjamenn eykst

Farþegar er flúðu Afganistan lenda í Bretlandi í nótt.
Farþegar er flúðu Afganistan lenda í Bretlandi í nótt. AFP

Þrýstingur á Bandaríkjamenn um að framlengja frest sinn til þess að yfirgefa Afganistan fyrir fullt og allt hefur aukist frá bandamönnum þeirra. 

BBC greinir frá.

Lengri frestur myndi gefa rýmri tíma fyrir Bandaríkjamenn til að flytja þá sem þess óska úr landi en þúsundir óska þess nú að flýja land, eftir að talíbanar náðu yfirráðum yfir landinu og átök stigmagnast dag frá degi.

Bandaríkjaher sem ræður nú yfir flugvellinum í Kabúl, eina flugvelli landsins sem starfhæfur er til millilandaflugs, hefur frest til 31. ágúst til þess að yfirgefa Afganistan. 

Biden undir feldi

Leiðtogar G7-ríkjanna munu koma saman í dag í Bretlandi til þess að ræða stöðuna í Afganistan. 

Talíbanar hafa varað Bandaríkjamenn við að reyni þeir að framlengja frest sinn til brottfarar verði af því afleiðingar. 

Fjöldi fólks bíður í von og óvon um að fá …
Fjöldi fólks bíður í von og óvon um að fá flutning úr landi við flugvöllinn í Kabúl. AFP

Fimm þúsund og átta hundruð bandarískir hermenn eru nú í Afganistan. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, mun næsta sólarhring ákveða hvort bandaríkjaher muni framlengja frest sinn til að yfirgefa svæðið, samkvæmt heimildum fréttastofu Reuters.

Bandaríkjamenn hafa flutt, eða haft umsjón með flutningi, um 48 þúsund manns frá Afganistan frá því rýming hófst 14. ágúst, samkvæmt tölum frá Hvíta húsinu. 

Fjöldi fólks sem óskar þess að flýja land bíður í von og óvon við flugvöllinn í Kabúl, margt hvert sem starfað hefur með erlendum stofnunum og óttast afleiðingar talíbana, sem réðu ríkjum á árunum 1996 til 2001. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert