Leynileg skýrsla sem Hvíta húsið fékk í hendurnar í gær reyndist ekki útskýra á afgerandi hátt uppruna Covid-19-faraldursins. Ein ástæða þess er skortur á upplýsingum frá Kína, að sögn bandarískra fjölmiðla.
Joe Biden Bandaríkjaforseti óskaði eftir skýrslunni fyrir 90 dögum síðan. Þar er ekki hægt að fullyrða hvort veiran sem fyrst greindist í Kína hafi smitast til mannfólks í gegnum dýr eða sloppið út úr rannsóknarstöð í borginni Wuhan.
Tveir bandarískir embættismenn sem tengjast málinu greindu blaðinu Washington Post frá þessu. Þeir sögðu að hluti skýrslunnar verði gerður opinber á næstu dögum.
Skiptar skoðanir hafa verið uppi um uppruna veirunnar, sem hefur orðið yfir fjórum milljónum manna að bana og lamað hagkerfi víðsvegar um heiminn.
Þegar Biden óskaði eftir rannsókninni sagði hann að leyniþjónustur skiptust í tvo hópa varðandi uppruna veirunnar, hvort hún hafi komið frá dýrum eða úr rannsóknarstofu.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, og aðstoðarmenn hans voru duglegir við að koma á framfæri kenningunni um að hún hefði átt uppruna sinn á rannsóknarstofu og bentu þeir á stjórnvöld í Peking, sem vísuðu kenningunni á bug. Á sama tíma var bandaríska ríkisstjórnin harðlega gagnrýnd fyrir viðbrögð sín heima fyrir við faraldrinum.
Þrátt fyrir að Biden hafi óskað eftir því að leyniþjónustur settu aukinn kraft í að rannsaka uppruna veirunna tókst þeim ekki að komast að afgerandi niðurstöðu. Hluti vandamálsins var skortur á nákvæmum upplýsinum frá Kína, að sögn Wall Street Journal.