Stöðva notkun á 1,7 milljón Moderna-skömmtum

Ekki hafa borist tilkynningar um heilsufarsvandamál tengd skömmtunum.
Ekki hafa borist tilkynningar um heilsufarsvandamál tengd skömmtunum. AFP

Yfirvöld í Japan ætla að stöðva notkun á rúmlega 1,7 milljón skömmtum af bóluefni frá Moderna eftir tilkynningar um að þeim hafi verið spillt. 

Fyrirtækið Takeda, sem sér um sölu og dreifingu á bóluefni frá Moderna, sagði í yfirlýsingu að það hafi fengið tilkynningar frá nokkrum bólusetningarmiðstöðum um að það hafi fundist „óþekkt efni í óopnuðum lyfjaglösum.“

Engar tilkynningar um heilsufarsvandamál

Í samráði við heilbrigðisráðuneyti Japan hefur fyrirtækið ákveðið að stöðva notkun bóluefnisins. Þá hefur Takeda tilkynnt Moderna um mengunina og óskað eftir brýnni rannsókn.

Takeda hefur ekki gefið út hvers eðli spillingin er en segir að engar tilkynningar um heilsufarsvandamál vegna skammtana hafi borist þeim.

Um það bil 43% Japana eru fullbólusettir og glímir landið nú við skæða bylgju af Delta-afbrigði kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert